Hleð Viðburðir
  • Þessi event er liðinn

DS. Fimmvörðuháls

Um viðburðinn:

Ds. Fimmvörðuháls er dróttskátamót á Fimmvörðuhálsi og í Básum í Þórsmörk á vegum skátafélagsins Landnema og fer fram dagana 10.-12. júní 2022, athugið að lagt verður af stað á föstudagsmorgni.

Föstudagurinn 10. júní
Leggjum af stað klukkan 10 um morguninn í rútu frá Landnemaheimilinu áleiðis á Skóga við Skógafoss undir Eyjafjöllum. Mæting er klukkan 09:45. Þegar dróttskátarnir eru farnir úr rútunni heldur hún áfram inn í Bása með tjöld, morgunmat á sunnudeginum og annað sem maður vill hafa klárt eftir gönguna.
Við tökum allan daginn í að ganga upp með Skógá, virða fyrir okkur 35 flotta fossa og skemmta okkur með skemmtilegu fólki. Komum um kvöldið upp í Fimmvörðuskála Útivistar sem staðsettur er uppi á efsta punkti hálsins í 1.000 metra hæð!
Þar eru 18 rúm sem við höfum öll bókuð fyrir okkur. Þar gistum við.

Laugardagurinn 11. júní
Göngum frá skálanum og niður í Básar Þórsmörk. Gríðarlega falleg leið sem byrjar á snjó á hálsinum milli tveggja jökla Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Kíkjum á nýju tindana Magna og Móða sem urðu til í eldgosinu 2010 og eru því yngri en dróttskátarnir. Röltum niður í Básar Þórsmörk og tjöldum þar.
Grillum, skoðum okkur um og syngjum í Básum um kvöldið en umfram allt njótum lífsins með skemmtilegum dróttskátavinum.

Sunnudagurinn 12. júní
Röltum mögulega eitthvað í kring og göngum frá dótinu í rútuna áður en við leggjum af stað í bæinn. Draumurinn er að stoppa í Stakkholtsgjá og ganga inn hana sem og í Merkurkeri þar sem við vöðum upp á sem rennur í gegnum helli (mæta með sunddót).
Komum aftur í Landnemaheimilið um kvöldmatarleytið og byrjum að láta okkur hlakka til landsmóts dróttskáta á Akureyri í ágúst þar sem við hittumst öll aftur.

Gisting
Það eru 40 sæti í rútunni en bara 18 gistipláss í skálanum. Ef við verðum fleiri en 18 þá geta einhverjir komið með dýnu og sofið á gólfinu eða tjaldað í snjónum fyrir utan, sem er mjög töff í þúsund metra hæð. Ef við verðum töluvert fleiri þá er líka laus Baldvinsskáli Ferðafélags Íslands aðeins neðar í brekkunni (ca. 800 metra hæð) sem við getum líka fengið. Það styttir aðeins leiðina á föstudeginum en lengir hana aðeins á laugardeginum.

Kostnaður
Verðið er 9.700 kr. Það sem gerir Landnemum kleift að hafa þetta svona ódýrt er að BÍS hefur tekið að sér að greiða rútureikninginn sem er stóri kostnaðurinn í þessu, er þeim færð þökk fyrir það.
Innifalið er rúta, gisting, sturta í Básum og sameiginlegur matur á laugardagskvöldið. Það er ágætt að hafa smá „sjoppupening“ með sér ef við tökum pissustopp á Hvolsvelli á föstudaginn og sunnudaginn.
Þátttakendur koma sjálfir með annan mat, þ.e. göngunesti föstudag og laugardag og morgunmat og nesti eða sjoppupening á leiðinni í bæinn á sunnudag.
Hikið ekki við að spyrja ef eitthvað er.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viktor Úlfarsson, dróttskátaforingi í Landnemum á Sportabler, í netfangi siggiulfars@gmail.com, síma 854-0074 eða eftir öðrum leiðum.

Klst

Min

Sek

Lykilupplýsingar

Byrjar:
10/06/2022 @ 08:00
Endar:
12/06/2022 @ 17:00
Aldurshópar:
Dróttskátar

Skipuleggjandi

Skátafélagið Landnemar
Sími:
5610071
Netfang:
landnemi@landnemi.is
Vefsíða:
View Skipuleggjandi Website

Staðsetning

Fimmvörðuháls og Básar