Verndargripurinn
Við höfum lifað lengi í okkar eigin heimum, þar sem við þekkjum hvern krók og kima, höfum ríkjandi hefðir og kunnum vel við okkur. Nú þegar við heyrum kallið og nýir heimar verða okkur aðgengilegir þá fylgjum við auðvitað ævintýrainnsæi skátans, pökkum öllu okkar hafurtaski og leggjum af stað í skemmtilegt ferðalag!
Einn af okkar mikilvægustu hlutum til þess að taka með í ferðalagið er verndargripurinn okkar, en hann kemur með okkur í öll okkar ferðalög og ævintýri. Ef þú veist ekki hvað verndargripurinn er, lestu þá áfram.
Verkefni skátafélagsins fram að Landsmóti skáta 2024
Hvert skátafélag útbýr sinn verndargrip sem það fer með í öll sín ferðalög og ævintýri fram að Landsmóti skáta 2024 og svo verður verndargripurinn auðvitað með í för á Landsmótinu.
Í aðdraganda Landsmóts skáta 2024 munu vera gefin út ýmis verkefni sem skátafélagið er hvatt til þess að leysa og safna sér þannig inn stigum, verðlaun verða síðan veitt á mótinu. Þessi verkefni eru hvatning til útivistar og ævintýra sem eru hluti af stóra ferðalaginu á Landsmót skáta.
Fyrsta skrefið er að búa til eða verða sér úti um verndargrip fyrir félagið. Verndargripur félagsins getur verið af ýmsu tagi, til dæmis eitthvað úr náttúrunni, stytta, tuskudýr, gríma, göngustafur, tálgaður munur eða hvað sem félaginu finnst endurspegla félagsandann best. Verndargripurinn á að bera merki Landsmóts eða Bandalag íslenskra skáta og vera skreyttur í anda síns skátafélags, til dæmis með merki félagsins, einkennislitum þess eða öðrum táknmyndum félagsins. Verndargripurinn getur svo tekið breytingum á mánuðunum fram að Landsmóti eftir því í hvaða ævintýrum hann lendir í á ferðalaginu að Landsmóti.
Ævintýri með verndargripinn með í för
Á ferðalaginu að Landsmóti munu skátafélögin lenda í hinum ýmsu ævintýrum og áskorunum. Félagið og sveitir, flokkar og einstaklingar innan félagsins skiptast á að taka verndargripinn með í öll þau útivistar ævintýri sem þau fara í fram að Landsmóti. Með því að hafa verndargrip félagsins með í för getur félagið safnað inn stigum og átt möguleika á að vinna verðlaun fyrir ýmsar gerðir ævintýra.
Öll félög sem taka þátt fá merki sem viðurkenningu fyrir skemmtilegt og spennandi ferðalag á Landsmót skáta 2024. Þar að auki geta félögin keppst um að vinna verðlaun fyrir að lenda í flestum ævintýrum, fara í frumlegustu ferðina, ferðast í alla landshluta og fleira. Verðlaunin verða svo afhent við hátíðlega athöfn á Landsmóti skáta 2024.
Á ferðalaginu á Landsmót munu félögin svo fá tækifæri á að taka þátt í ýmsum áskorunum með sinn verndargrið með í för. Þannig geta félögin bæði unnið sér inn stig með því að taka verndargripinn með sér í öll útivistar ævintýri skátafélagsins en einnig með því að taka þátt í sérhönnuðum útivistaráskorunum sem verða gefnar út sem undirbúningur og hvatning fyrir landsmótið.
Um þátttöku í þessu skemmtilega ferðalagi gilda eftirfarandi reglur:
- Ævintýrið eða áskorunin verður að vera útivistarverkefni til þess að teljast til stiga
- Verngargripurinn verður að vera með í för
- Ljósmynd skal tekin til sönnunar á framkvæmd verkefnis og verndargripur félagsins verður að vera með á myndinni