Útkall – Íslenski fararhópurinn á Evrópuráðstefnu WAGGGS og WOSM
Sæktu um að verða hluti af íslenska fararhópnum fyrir Evrópuráðstefnur WOSM og WAGGGS!
Langar þig að vita allt um brýnustu málefni er varða skáta í Evrópu? Langar þig að taka þátt í að móta framtíðar starfsemi heimssamtakanna tveggja, WAGGGS og WOSM? Finnst þér gaman að ræða við nýtt fólk um flókin málefni?
Evrópuráðstefnan, sem haldin er á þriggja ára fresti, er einstakt tækifæri til kynnast og hafa áhrif á skátastarf í Evrópu. Þátttaka felur í sér langa daga fulla af allskonar umræðum en markmiðið er að móta saman stefnu evrópuskátastarfs næstu ára. Löndin í Evrópu eru fjölbreytt með mismunandi menningu og ýmsar hugmyndir um hvernig skátastarf á að vera svo hér er um að ræða spennandi tækifæri.
Þingið er haldið í Vín í Austurríki 19. – 23. júlí 2025. Í fararhópnum verða alþjóðafulltrúarnir okkar, Egle Sipaviciute og Berglind Lilja Björnsdóttir, auk annarra. BÍS greiðir allan kostnað fararhópsins.
Fyrir þingið verða haldnir tveir til þrír undirbúningsfundir og eftir þing verður endurmatsfundur.
Þátttakendur í fararhópnum skulu:
- Lesa, skilja og tala ensku.
- Taka virkan þátt bæði í undirbúningsvinnu íslenska fararhópsins fyrir þing og á þinginu sjálfu.
Það þarf enginn að vera sérfræðingur en það væri gott ef umsækjendur tengja við eitthvað af eftirfarandi:
- Hafa mætt á skátaþing BÍS eða ársfundi annarra ungmennahreyfinga.
- Hafa áhuga á þróun skátastarfs í Evrópu.
- Vera virk í ungmennastarfi hjá BÍS eða erlendis, t.d. hafa mætt á ungmennaþing eða Agora.
- Hafa reynslu af alþjóðlegu skátastarfi, t.d. erlendum skátamótum eða viðburðum.
- Hafa sérhæfða þekkingu á sviðum sem snúa að stefnumótun, lagaákvæðum, fjármálum eða mannréttindum.
- Vinna að verkefnum fyrir BÍS, t.d. ráð og nefndir.
- Geta lesið, skilið og talað frönsku, spænsku eða önnur evrópsk tungumál.
Við stefnum á að senda út fjölbreyttan hóp fólks og leitumst eftir jafnri dreifingu er varðar aldur, kyn og reynslu á alþjóðamálum. Við hvetjum sérstaklega skáta á róverskátaaldri til að sækja um.
Umsækjendur þurfa að vera 18 ára eða eldri.
Hefur þú áhuga á að taka þátt í íslenska fararhópnum?
Sæktu um fyrir 14. janúar 2025.
Hér er hægt að lesa meira um þingið.
Ef þú hefur einhverjar spurningar, vinsamlegast hafðu samband við Alþjóðafulltrúana okkar: Egle Sipaviciute (egle@skatarnir.is) og Berglindi Lilju Björnsdóttur (berglind@skatarnir.is)