Útilegur með grunnskólabörn

25/01/2021

FYRIRSPURNIR UM ÚTILEGUR

Fjöldi fyrirspurna hefur borist Skátamiðstöðinni frá skátafélögum um útilegur með grunnskólabörnum (dreka-, fálka- og dróttskátum). Því áframsendi Skátamiðstöðin fyrirspurnina á yfirvöld.

Samkvæmt svörum heilbrigðisráðuneytis fer það ekki gegn ákvæðum reglugerðar um skólahald (sem æskulýðsstarf nær undir) að fara með ungmenni í útilegur en ítrekað að gæta ávallt ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða.

LEIÐBEININGAR BÍS UM ÚTILEGUR

Skátafélögunum er heimilt að fara í flokks- og sveitarútilegur með skátum á aldursbili dreka-, fálka- eða dróttskáta. Þannig skal eingöngu fara með þau ungmenni saman í útilegu sem hittast á vikulegum skátafundum en ekki blanda hópum í útilegum milli skátasveita né á milli skátafélaga. Hámarksfjöldi er 50 líkt og á skátafundum.

Fjölda sjálfboðaliða sem fer með ungmennunum í útilegu skal halda í lágmarki en þó vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis í útilegunni. Hámarskfjöldi sjálfboðaliða er 20. Sjálfboðaliðar skulu gæta fjarlægðartakmarkana gagnvart hvoru öðru og bera andlitsgrímur þegar það er ekki hægt.

Foreldrar mega skutla og sækja ungmenni og farangur í útilegu á meðan að á henni stendur en heimsóknir foreldra og annarra ungmenna en þeirra sem eru í skátasveitinni skulu vera óheimilar í útilegunni. Eins skulu aðrir sjálfboðaliðar ekki vitja útilegunnar nema nauðsyn krefji.

Eingöngu skal fara í útilegu ef hægt er að gæta ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða m.a. með því að hafa góða aðstöðu til handþvotts, hafa spritt aðgengilegt öllum stundum, þrífa sameiginlega fleti reglulega og tryggja góða loftræstingu.

Stjórn og skátaforingjar skátafélaga skulu sameiginlega gæta þess að upplýsa forráðafólk ungmenna vel áður en farið er í útilegu.