Ungt fólk og umhverfismál

Á miðvikudaginn hélt NORDBUK, ásamt Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, viðburðinn „Youth Leading a Sustainable Lifestyle“. Um 70 norræn ungmenni tóku þátt í viðburðinum ásamt umhverfisráðherrum Norðurlandanna og fyrirtækjum frá Norðurlöndunum. Skátarnir fengu einnig að taka þátt með nokkrum ungum skátum sem vilja vera virkari í sjálfbærum lífsstíl og læra hvernig skátarnir geta tekið virkan þátt í að byggja betri heim.

Yfirskrift viðburðarins var „Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla – Trygging sjálfbærrar neyslu- og framleiðslustarfsemi“ þar sem að allir á Norðurlöndunum geta, og þurfa, raunverulega að vinna að þessu heimsmarkmiði. Sem dæmi er hluti af markmiði 12 að stefna að því að minnka matarsóun heimsins um helming fyrir árið 2030, þar sem að um þriðjungur allra matvæla í heiminum fara til spillis.

Mynd: Danska sendiráðið

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, er ungmennafulltrúi Íslands

í Nordbuk. “Markmið ráðstefnunnar var að færa Norðurlöndin nær heimsmarkmiði númer 12. Það var því vel til fundið að bjóða ráðherrum, stjórnendum í íslensku atvinnulífi og fjölbreyttum hópi ungs fólks. Þannig leiddum við saman ástríðu, hugrekki, reynslu og völd. Sem er nákvæmlega sú formúla sem við þurfum á að halda til að ná heimsmarkmiðunum. Það er því mikilvægt að ungt fólk sé með í ráðum þegar ákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðina eru teknar.”

 

Ráðstefnan var haldin í Hörpu og tók Marta einnig þátt í pallborðsumræðum þar sem henni gafst m.a. tækifæri til að spyrja umhverfisráðherra Norðurlandanna um hvað Norðurlöndin þurfa að gera meira af til að ná Parísarsamkomulaginu: “Ég var ánægð að heyra að ráðherrarnir eru með ýmsar aðgerðaráætlanir um aukna ungmennaþáttöku, en ég hefði viljað að þeir hefðu veitt djarfari svör um náttúruvernd, það var það sem ráðstefnan vildi heyra því djarfar lausnir og breytingar er það sem þarf til að vernda náttúruna, núna strax.“

Margrethe Grønvold Friis, annar erindreka BÍS, fékk einnig að leiða hringborðsumræður með áherslu á hvernig við, í gegnum menningu og menningarviðburði, getum fundið lausnir saman til að ná heimsmarkmiði 12.

„Fyrir mig var mjög mikilvægt að fá fólk saman til að eiga opið samtal og komast dýpra í hvernig við getum framkvæmt aðgerðir sem hafa mikil áhrif. Ég tel það vera mjög mikilvægt að fá eins marga og hægt er til að vera meðvitaða um Heimsmarkmiðin og að við munum öll sjá heimsmarkmiðin sem okkar eigin markmið sem hjálpa okkur að taka ákvarðanir í okkar daglega lífi. Ég sé menningarviðburði eins og hátíðir og skátamót sem gott dæmi um hvernig við getum fengið mörg ungmenni til að hugleiða neysluvenjur sínar og hvaða áhrif neysluhyggja þeirra hefur á umhverfið. Einnig að við getum sýnt að það er ekki erfitt að gera stórar breytingar á því sem við erum að kaupa og hvers konar mat við borðum.“ segir Margrethe.

Ásgerður Magnusdóttir tók þátt í hringborðsumræðum um úrgangsmetakerfið en það er ákveðið kerfi sem segir til um aðgerðir til að minnka og stjórna úrgangi.

„Það var mjög áhugavert að fá innsýn í hvernig verið er að reyna að minnka rusl og auka endingartíma hluta í hinum Norðurlöndunum. Í umræðunum vorum við sammála um að þetta snerist aðallega um viðhorfsbreytingu sem er vonandi nú þegar hafin um neysluvenjur fólks. Markviss neysla þýðir minni úrgangur. Ef maður kaupir minna og er meðvitaðari um það sem maður er að kaupa þá er það góð byrjun.“

Mynd: Margrethe Grønvold Friis

Eitt sem var ljóst á fundinum er að allir geta unnið að markmiði 12.8 sem er: Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt ávarp á viðburðinum og sagði að loftslagsverkföllin hafa virkileg áhrif á hana og hina sem sitja á Alþingi.

Síðan skátastarf byrjaði hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á að skáti sé náttúruvinur. Skátar á Íslandi hafa alltaf reynt að hafa þetta að leiðarljósi í sínu starfi en í ljósi stöðu loftslagsmála í dag er þetta málefni orðið mun mikilvægara en áður. Þess vegna ákvað hópur skáta að mæta á loftslagsverkfallið á Austurvelli í dag og mótmæla stöðu loftslagsmála. Loftslagsverkföllin voru stofnuð af sænska umhverfis aktivístanum Gretu Thunberg og hafa náð fótfestu um allan heim undanfarna 2 mánuði.

Á seinasta skátaþingi var sett fram þingsályktun sem hvatti skátafélögin og BÍS til þess að vera umhverfisvænni í sínu starfi. Út frá því myndaðist mikil umræða og varð þá ljóst að skátar geta gert mun meira fyrir umhverfið. Í kjölfar þess verður lögð meiri áhersla umhverfismál innan bandalagsins á komandi mánuðum. Að sjálfsögðu tengjast umhverfismálin einnig heimsmarkmiðunum sem eru stór partur af skátastarfi um þessar mundir. Eru því allir skátar hvattir til að sýna fyrirmynd í verki og hjálpa skátafélögunum og BÍS að gera skátastarf eins umhverfisvænt og hægt er.

—-

Markmið skátastarfs frá upphafi hefur verið að skapa betri heim. Það gerum við með því að halda í heiðri grunngildi skátahreyfingarinnar og efla ungt fólk til að vera ábyrg og virk í samfélaginu. Það sem við gerum í skátastarfi á því alltaf á einn eða annan hátt að færa okkur nær heimsmarkmiðunum. Til að skerpa enn betur á þessu og vinna markvisst að heimsmarkmiðunum í skátastarfi þá getur þú fengið hugmyndir að verkefnum og hugleiðingum úr Byggjum betri heim bæklingnum.

Viltu hafa áhrif? Senn lýkur útkalli (e. open call) í “Stýrihóp Heimsmarkmiða í skátastarfi”. Ertu með djarfar hugmyndir um hvernig skátahreyfingin getur lagt enn meira af mörkum til heimamarkmiðanna? Kynntu þér málið hér.