Þankadagurinn

Þankadagurinn eða World Thinking Day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og senda þakklæti út í heiminn.

Haldið hefur verið upp á Þankadaginn á hverju ári síðan 1926. Hugmyndin varð fyrst til þegar kvenskátar (Girl Guides og Girl Scouts) hittust í Bandaríkjunum á fjórðu heimsráðstefnu WAGGGS sama ár. Þær voru sammála um að það ætti að vera sérstakur dagur á hverju ári, tileinkaður öllum þeim sem eru hluti af skátunum til að hugsa hvert til annars og senda þakklæti út í heiminn.

Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla skáta á Íslandi til þess að fagna deginum og geta skátaforingjar nýtt sér verkefni úr dagskrápökkum frá WAGGGS sem eru tileinkaðir þankadeginum. Sumir dagskrápakkar hafa verið þýddir á íslensku af vinnuhópum tileinkuðum þankadeginum.

Síða um þankadaginn er hægt að finna hér ásamt dagskrápökkum síðustu ára.

 

Við leytum af einstaklingum eða hópum sem hafa áhuga á að aðstoða við þýðingu á Þankadagsdagskrápakka 2024! Endilega hafið samband við Sædísi hjá Skátamiðstöðinni ef þið hafið áhuga: saedis@skatarnir.is 


Vinnuhópur um dagskrá og hvatakerfi róverskáta

Vinnuhópur um dagskrá og hvatakerfi Róverskáta

Nýverið kom starfsgrunnur BÍS út í nákvæmari mynd en þar voru viðfangsefni og markmið í skátastarfi skilgreind frá yngsta til elsta aldursbils þátttakenda og aldeilis bætt við dagskrárumgjörð og hvatakerfi yngri aldursbila. Næst vill starfsráð leggja ofur áherslu á dagskrá og hvatakerfi róverskáta en í samráði um starfsgrunninn varð mikilvægi þess ljóst. Því er leitað eftir áhugasömum og öflugum skátum til að taka áfram þær grunnhugmyndir sem búið er að undirbúa og móta umgjörð róverskátastarfs á Íslandi til framtíðar.

Skyldur og ábyrgð

Skoða og koma með tillögur að úrbótum fyrir dagskrárefni Róverskáta. Hópurinn mun skoða hugmyndir frá starfsráði um „Skátaárið“, hugmyndir um „Sjálfboðaliðaverðlaun BÍS“, umgjörð „The Duke of Edinburgh‘s International Award“ og umgjörð „Scout of the World Award“, starfshópurinn getur einnig skoðað umgjörð starfsins í nágrannalöndum.

Hópurinn mun svo gera tillögur um hvaða leiðir skuli farnar til að móta umgjörð dagskrár og hvatakerfis róverskáta til framtíðar.

Hæfni

  • Vera á róverskátaaldri eða hafa nýlega verið á róverskátaaldri.
  • Brenna fyrir uppbyggingu róverskátastarfs á landsvísu.
  • Reiðubúin að sitja fundi, leggjast í smá rannsóknarvinnu utan funda og vinna efni áfram til að skila góðum tillögum til starfsráðs.

Aðbúnaður, þjálfun og stuðningur

Hópurinn hefur aðgang að fundaraðstöðu í Skátamiðstöðinni og aðgang að öllu útgefnu efni tengt róverskátaaldrinum.

Hópurinn fær ítarefni um þau verkefni sem verða til skoðunar frá starfsráði og Skátamiðstöð.

Starfsráð mun funda með hópnum í upphafi og styðja áfram við vinnu hópsins eftir að hann tekur til starfa.

Sérstakar áskoranir

Talsverður hluti vinnunnar felst í að kynna sér umgjörðir erlendis frá og skoða það til hlítar.

Vinnan er stutt komin og á lítilli reynslu að byggja hérlendis frá.

Ætlast er til að tillögur vinnuhópsins séu metnaðarfullar ásamt því að vera nægilega krefjandi og spennandi fyrir aldursbili 19-25 ára skáta.

Markmið / mælikvarðar

  1. Að róverskátar upplifi að þau hafi fengið að hafa bein áhrif á eigið dagskrárefni og hvatakerfi.
  2. Að loknum störfum liggi fyrir tillaga að einhverskonar dagskrárramma fyrir íslenska róverskáta.
  3. Að loknum störfum liggi fyrir tillaga að nákvæmri skilgreiningu á íslensku hvatakerfi róverskáta.
  4. Að loknum störfum hafi mat verið lagt á hvaða alþjóðlegu umgjörðir fyrir róverskáta sé hægt að innleiða í starfi íslenskra róverskáta og tengslum náð við erlenda samstarfsaðila um það.


Umsóknarfrestur er til og með 10. september

Við bendum á lýsingu á markmiðum og hæfni hér að ofan.