Sumardagurinn fyrsti 2019

Skátadagskrá sumardagsins fyrsta 2019

Um árabil hafa skátar um allt land tekið virkan þátt í og jafnvel haft yfirumsjón með hátíðarhöldum á sumardeginum fyrsta. Í ár er dagskráin sérstaklega glæsileg en um allt land munu skátar leiða skrúðgöngur og hafa umsjón með stórskemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Dagskrá skátanna er listuð hér að neðan í stafrófsröð bæjarfélaga og dagskrá skáta í Reykjavík er síðan neðst á síðunni í stafrófsröð eftir hverfum.

Kassaklifur verður í boði á ýmsum stöðum á sumardaginn fyrsta

Akranes – Skátafélag Akraness
Skátarnir á Akranesi munu standa fyrir skrúðgöngu sem hefst klukkan 10:30 við skátaheimili þeirra í Háholti 24. Gengið verður að Akraneskirkju þar sem skátamessa  hefst klukkan 11:00.

Akureyri – Skátafélagið Klakkur
Skátarnir á Akureyri munu standa fyrir skrúðgöngu sem hefst klukkan 10:30 við Giljaskóla. Gengið verður að Glerárkirkju þar sem skátamessa hefst  klukkan 11:00.

Búðardalur – Skátafélagið Stígandi
Skátarnir í Stíganda munu taka þátt í skátamessu sem hefst klukkan 11:00 í Hjarðarholti þar sem Anna Eiríksdóttir sóknarpressur messar. Milli klukkan 13:00 og 15:30 verður síðan opið hús hjá skátunum í Dalabúð þar sem gestum verður boðið að taka þátt í leikjum, verkefnum og þrautum bæði innan- sem utandyra. Klukkan 15:30 hefst síðan vöffluhlaðborð í Dalabúð fyrir litlar 1.000,- kr. á mann, vöffluhlaðborðið er fjáröflun á vegum Tydalfara.

Garðabær – Skátafélagið Vífill
Skátar í Garðabæ standa fyrir skátamessu í Vídalínskirkju sem hefst klukkan 13:00. Að henni lokinni, klukkan 14:00, mun Vífill leiða skrúðgöngu frá Vídalínskirkju að Hofsstaðaskóla. Dagskrá hefst við Hofsstaðaskóla klukkan 14:30 en þar verða leiktæki, veltibíllinn og skemmtiatriði ásamt því sem Hjálparsveit skáta í Garðabæ verður með kynningu. Sjoppa verður á staðnum en einnig verður skátakaffi milli 15:00 og 17:00 í samkomusal Hofsstaðaskóla.

Grundarfjörður – Skátafélagið Örninn
Skátarnir í Grundarfirði munu standa fyrir fjallgöngu á sumardaginn fyrsta fyrir skáta og fjölskyldur þeirra. Gengið verður upp með Ytri Búðá sem er létt ganga við allra hæfi og ekki skemmir veðurspáin fyrir heldur. Stoppað verður á leiðinni til að skoða gilið, fossinn og klettana ásamt því sem tími verður til að leika sér.

Hafnarfjörður – Skátafélagið Hraunbúar
Skátarnir í Hafnarfirði standa fyrir skátamessu í Víðistaðakirkju sem hefst klukkan 13:00. Að henni lokinni munu Hraunbúar leiða skrúðgöngu frá Víðistaðakirkju að Thorsplani. Klukkan 14:00 hefst síðan fjölskyldudagskrá á Thorsplani í umsjón skátafélagsins Hraunbúa. Þar munu skátarnir bjóða gestum að taka þátt í kassaklifri og prófa hoppukastala,einnig verður selt góðgæti úr sjoppu. Samhliða verður glæsileg dagskrá á sviði þar sem m.a. fram koma Svala Björgvins, trúðurinn Wally, Dansíþróttafélag Hafnafjarðar, leikfélag Flensborgarskólans, söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Dementz og kynnir verður Jón Jónsson.

Flest skátafélög verða með hoppukastala í sinni dagskrá
Í Hafnarfirði eru hátíðarhöldin á sumardaginn fyrsta hluti af Björtum dögum
Skátar um allt land verða með allskyns skemmtilegar þrautir og leiki

Hveragerði – Skátafélagið Strókur
Skátarnir í Hveragerði standa fyrir fjölskyldumessu í Hveragerðiskirkju klukkan 11:00. Eftir messu verður gestum boðið upp á súpu í skátaheimili Stróks, Breiðumörk 22, en súpan er í boði skátagildisins.

Kópavogur – Skátafélagið Kópar
Skátarnir í Kópavogi leiða skrúðgöngu sem hefst klukkan 13:30 við Digraneskirkju. Gengið verður í Fífuna þar sem glæsileg dagskrá í umsjón skátanna hefst klukkan 14:00. Fjöldinn allur af hoppuköstulum verður á svæðinu en einnig verður dagskrá á sviði þar sem  fram koma m.a. Leikhópurinn Lotta, nemendur úr Álfhólsskóla flytja atriði úr Grease og Erla Gerður sigurvegari söngkeppni félagsmiðstöðva í Kópavogi flytur lag. Skátarnir sinna einnig veitingasölu fyrir svanga gesti.
Skátagildin í Kópavogi bjóða síðan upp á kvöldvöku í skátaheimili Kópa, Digranesvegi 79, klukkan 18:00.

Mosfellsbær – Skátafélagið Mosverjar
Skátarnir í Mosfellsbæ standa fyrir frábæru fjöri. Dagskráin hefst með skrúðgöngu frá bæjartorginu en gengið verður að íþróttasvæðinu að Varmá. Klukkan 13:30 hefjast hátíðarhöldin við íþróttamiðstöðina en gestir geta prófað hoppukastala, spreytt sig á skátaþrautum, farið í kassaklifur og fari fólki að hungra verður Boozt-hjólið, grillaðar pylsur og heitar vöfflur ekki langt undan.

Reykjanesbær – Skátafélagið Heiðabúar
Skátarnir í Reykjanesbæ leiða skrúðgöngu sem hefst klukkan 12:30. Gengið verður frá skátaheimili Heiðabúa, við Hringbraut 101, að Keflavíkurkirkju þar sem haldin verður skátamessa sem hefst klukkan 13:00.
Að lokinni messu verður samverustund í skátaheimilinu þar sem kaffi og veitingar verða í boði fyrir gesti.

Hoppukastalar henta ungum sem öldnum

Sauðárkrókur – Skátafélagið Eilífsbúar
Skátarnir á Sauðarkóki hjálpa til við að setja lit á hátíðarhöldin með því að draga íslenska fánann að húni fyrir einstaklinga og fyrirtæki og að taka hann niður að degi loknum.

Selfoss – Skátafélagið Fossbúar
Skátarnir á Selfossi leiða skrúðgöngu sem hefst 13:00 frá ráðhúsi Árborgar, eftir Austurvegi, Reynivelli og Engjaveg inn í garð Glaðheima, skátaheimilis Fossbúa. Klukkan 13:45 hefst síðan dagskrá í Glaðheimum þar sem gestir og gangandi geta reynt við allskyns þrautir, farið í hoppukastala og bakað yfir eldi í umsjón skátanna.
Dagskráin er hluti af fjölskylduleiknum  „Gaman saman“ sem verður í gangi í vor  í Árborg. Dagskrá lýkur kl. 16:00.

 

Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur fært hátíðarhöldin í hverfunum að sundlaugum Reykjavíkur og verða skátafélögin í Reykjavík að sjálfsögðu ómissandi hluti af þeirri dagskrá. Einnig standa skátar í Reykjavík fyrir hluta dagskrár í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum ásamt því að taka þátt í tveimur hverfahátíðum til viðbótar og því er úr nægu að velja á sumardaginn fyrsta fyrir Reykvíkinga. Þátttaka í þessum hátíðarhöldum er ókeypis en sömuleiðis verður ókeypis í allar sundlaugar Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á sumardaginn fyrsta.

Árbær – Skátafélagið Árbúar
Skátafélagið Árbúar stendur fyrir skrúðgöngu í samstarfi við Árbæjarkirkju. Skrúðgangan hefst klukkan 11:00 og gengið verður frá Árbæjarsafni að Árbæjarkirkju en að skrúðgöngu lokinni verður haldin fjölskyldustund í Árbæjarkirkju klukkan 11:30.
Eftir að dagskrá lýkur í Árbæjarkirkju mun skátafélagið standa fyrir stórskemmtilegum póstaleik sem hefst klukkan 12:30 við Árbæjarsundlaug en verðlaun verða í boði fyrir þátttakendur en einnig verður hægt að tálga, fara í hoppukastala og grilla yfir opnum eldi. Foreldrar og börn geta síðan kynnt sér hinn geysivinsæla Útilífsskóla Árbúa og einnig keypt léttar veitingar af félaginu.

Fossvogur og Hvassaleiti – Skátafélagið Garðbúar
Skátarnir í Garðbúum eru sannkölluð sumarbörn og verða því á tveimur stöðum yfir daginn. Félagið verður með hoppukastala og kandýfloss í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá 11:00 til 13:30.
Skátar úr félaginu verða einnig viðstaddir hátíðarhöldin í Fossvoginum en klukkan 12 verða þeir með pylsur í Grímsbæ en leggja síðan af stað í skrúðgöngu frá  Grímsbæ klukkan 13:00 en gengið verður yfir í Bústaðarkirkju en þar tekur við 40 mínútna dagskrá á vegum kirkjunnar. Klukkan 14:00 hefst síðan hátíð í Víkinni þar sem ýmsir aðilar verða með dagskrá og skátarnir standa fyrir leikjum, hoppuköstulum og lopasleikjóum.

Laugardalur – Skátafélagið Skjöldungar
Skátarnir í Skjöldungum stýra skrúðgöngu sem hefst klukkan 12:30 við Skjöldungaheimilið, Sólheimum 21a. Gengið verður að  Laugardalslaug en þar hefjast hátíðarhöld klukkan 13:00 og skátarnir hafa umsjón með hoppuköstulum, stýra hópleikjum og skátaþrautir verða í boði Útilífsskóla Skjöldunga og áhugasamir geta kynnt sér námskeið Útilífskólans í sumar. Skátarnir standa einnig fyrir sölu á ýmsu góðgæti í sölutjaldi en salan er fjáröflun fyrir unga skáta félagsins sem halda til Bandaríkjanna á alþjóða skátamót í sumar.


Breiðholt – Skátafélögin Hafernir og Segull
Skátafélögin tvö í Breiðholti taka höndum saman á Sumardaginn fyrsta með glæsilega dagskrá á tveimur stöðum. Frítt verður í Breiðholtslaug á Sumardaginn fyrsta og  milli 10 – 12 verður hægt að taka þátt í ratleik og fara í hoppukastala við laugina. Einnig verða seldar pylsur og lopasleikjó.
Klukkan 13 hefst síðan dagskrá í Félagsmiðstöðinni Hólmaseli 4-6 en þar verður hægt að fá andlitsmálningu, fara í hoppukastala og taka þátt í ratleik. Þá verður seldur lopasleikjó og grillaðar pylsur.
Samhliða því verða flott atriði á klukkutíma fresti en Leikhópurinn Lotta stígur á svið klukkan 13:00, BMX brós verða á ferli klukkan 14:00 og síðan verður siguratriði  „Breiðholt Got Talent“ flutt klukkan 15:00.

Hlíðar, Háaleiti, Miðbær – Skátafélagið Landnemar
Skátar úr Landnemum munu bjóða gestum að prófa hoppukastala við Sundhöll Reykjavíkur milli 13 og 16

Grafarvogur, Grafarholt, Úlfársdalur – Skátafélagið Hamar
Skátafélagið Hamar tekur þátt í skemmtanahaldi við Grafarvogslaug sem hefst 13:00. Félagið mun sinna hoppuköstulum þar sem gestir geta hoppað en skátarnir munu einnig selja grillaðar pylsur og geta bæði þeir sem borða kjöt og ekki fengið pylsur við sitt hæfi. Dagskrá lýkur klukkan 16:00.

Vesturbær – Skátafélagið Ægisbúar
Skátar úr Ægisbúum verða með hoppukastala fyrir utan Vesturbæjarlaug milli 11 og 13, þá munu þeir dreifa auglýsingum um Útilífsskóla Ægisbúa sem hefst aftur eftir tíu ára hlé nú í sumar.

Auglýsingar frá félögunum