Védís Helgadóttir

Framboð : Starfsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Ég var 13 ára þegar ég fór á minn fyrsta skátafund í dróttskátasveitinni Hvítu fjöðrinni í Ægisbúum og eftir þann fund var ekki aftur snúið. Ég var í frábæru dróttskátastarfi þar sem okkur gáfust mörg tækifæri til að taka þátt í millifélagaviðburðum eins og Vetraráskorun Crean, Saman, Ds. Vitleysu og auðvitað Landsmóti skáta. Haustið 2017 fór ég að starfa með Landnemum og hef verið að sinna foringjastörfum síðan þá; fyrst sem dróttskátaforingi, síðan drekaskátaforingi og nú fálkaskátaforingi. Núna er ég líka dagskrárforingi í Landnemum sem er hlutverk sem rímar vel við þau mál sem við fáumst við í starfsráði en ég hef setið í starfsráði síðan á Skátaþingi 2022. Þá um vorið hóf ég líka störf með Leiðbeinendasveitinni sem er vinnuhópur á vegum Skátaskólans og hefur það hlutverk að skipuleggja og halda leiðtogaþjálfunar- og foringjanámskeið. Í byrjun febrúar þessa árs lauk ég Gilwellþjálfuninni minni en námskeiðið hafði ég sótt í Slóveníu og var mér mjög lærdómsríkt.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Það er svo margt skemmtilegt sem ég hef gert í skátastarfi! Mér finnst til dæmis mjög gaman að vera sveitarforingi og það er einhvern veginn þar sem maður kemst inn að kviku skátastarfsins og svo er maður líka alltaf að læra eitthvað nýtt í foringjastörfum, sama hvað maður hefur verið lengi skátaforingi. Það er einhvern veginn alltaf hægt að sjá nýjar hliðar foringjahlutverksins og spreyta sig á nýjum áskorunum. Aldrei eins, en alltaf gaman. Síðan finnst mér líka mjög gaman að búa til og leiðbeina á foringjanámskeiðum eins og við höfum verið að gera í Leiðbeinendasveitinni og svo fannst mér algjörlega frábært á Gilwell!

Hví gefur þú kost á þér í Starfsráð?

Undanfarin tvö ár höfum við í starfsráði unnið mikið með starfsgrunninn sem hefur þróast talsvert undanfarið. Hvatakerfið hefur þróast með tilkomu könnuðamerkjanna og hæða- og stikumerkjanna og á þessum tímapunkti finnst mér t.d. mikilvægt að sigla þeim úr vör og skoða hvernig þau virka í praktík.

Það er heill hafsjór þekkingar á skátastarfi til meðal skátaforingja og mér finnst að við eigum að vera dugleg að deila sniðugum ráðum og hugmyndum úr foringjastörfunum hvert með öðru. Mér finnst mikilvægt að finna þessum samtölum farveg og það hefur til dæmis verið gert með hringborðum skátaforingja, en svo er alltaf hægt að spjalla meira og meira um skátastarf.

Þá finnst mér mjög mikilvægt að við hlúum vel að rekkaskátaaldursbilinu næstu árin og dagskrárgrunni rekkaskáta sem byggist að miklu leyti á forsetamerkisvegferðinni, og að við styðjum rekkaskáta á þeirri vegferð.