Unnur Líf Kvaran

Framboð: Meðstjórnandi BÍS

Ferill þinn í skátastarfi?

Ég byrjaði í skátunum sirka 9 ára vegna þess að amma mín benti mér á að það var hoppukastali á kynningardegi skátafélagsins Hamars. Síðan þá hefur ekki verið hægt að slíta mig frá hoppinu og hí-inu í skátunum. Ég starfaði svo með skátafélaginu Fossbúum frá árinu 2007. Þar fékk ég mikla hvatningu og tækifæri til að spreyta mig í ýmsum verkefnum, byrjaði ung sem sveitaforingi og tók þannig þátt í uppbyggingu félagsins. Mig langaði að flytja í tjaldbúðina á Landsmóti skáta árið 2008 og búa þar að eilífu í skátaparadís, þar sem það var ekki möguleiki hef ég keppst um að komast á eins mörg skátamót og hægt er eftir það. Ég tók þátt í að skipuleggja útilegur og ferðir, tók þátt í foringjaþjálfunum og súrraði út í rauðan dauðann á sumardeginum fyrsta ár hvert. Ég sat í stjórn Fossbúa og gegndi stöðu aðstoðarfélagsforingja á árunum 2017-2019, þrátt fyrir að hafa flutt til Reykjavíkur í miðri stjórnarsetu.

Laugardalurinn heillaði og tóku Skjöldungar mér opnum örmum. Þar hef ég verið sveitaforingi fálkaskáta og áfram fengið tækifæri til að spreyta mig í nýjum verkefnum með góðan stuðning frá foringjum og stjórn félagsins. Ég starfaði sem skólastjóri Útilífsskóla Skjöldunga sumarið 2020 og tók þátt í uppbyggingu skátaskálans Hleiðru, sem er staðsettur í ævintýraveröld við Hafravatn. Ég tel mig tilheyra bæði Fossbúum og Skjöldungum og verð ævinlega þakklát fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið hingað til og allan stuðninginn og hvatninguna sem foringjar mínir og vinir í félögunum hafa gefið mér gegnum árin.

Þegar ég kynntist skátastafi utan félags stækkaði heimurinn minn umtalsvert. Ég fór auðvitað að teygja angana í allar áttir og hef sinnt ýmsum verkefnum á vegum BÍS. Ég var mótsstjóri Drekaskátamóts frá 2017-2019, fararstjóri á Roverway í Hollandi árið 2018, Upplýsingastjóri Landsmóts skáta 2020 og starfaði á skrifstofu BÍS sem þjónustufulltrúi frá 2018-2019. Einnig tók ég vettvangsnám á BÍS við að skipuleggja Skátaþing árið 2018 sem hluta af námi mínu í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum.
Mér mun aldrei takast að gera tæmandi lista yfir allt það sem skátastarf hefur gefið mér og alla þá reynslu sem ég hef fengið í skátastarfi, en eitt er víst og það er að ég er skáti í húð og hár!

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Það skemmtilegasta sem ég geri í skátunum er að skipuleggja og framkvæma viðburði. Það sem mér finnst skemmtilegast við það er að kynnast nýju fólki, búa til tækifæri og upplifanir og verja tíma með frábæru fólki að fást við krefjandi og spennandi verkefni. Félagslífið er klárlega það sem mér þykir vænst um á mínum skátaferli og það er ómögulegt að velja afmarkaðan viðburð eða upplifun sem stendur sérstaklega uppúr.

Hví gefur þú kost á þér sem meðstjórnanda BÍS?

Ég gef kost á mér í stjórn BÍS vegna þess að ég hef brennandi áhuga á skátastarfi og vil helst verja öllum mínum stundum í að skátast. Mig langar að láta gott af mér leiða í þágu skátahreyfingarinnar og ég tel krafta mína nýtast best í stjórn BÍS. Ég hef mikla og fjölbreytta reynslu innan sem utan skáta og er mjög spennt að nýta hana í ýmis verkefni innan skátanna á næstu misserum. Mig langar að leggja áherslu á að auka viðburðahald og veita stuðning við skátaforingja og félögin og þannig leggja mitt af mörkum í uppbyggingu og framþróun skátastarfs á Íslandi.