Þórhallur "Laddi" Helgason
Framboð: Meðstjórnandi BÍS
Ferill þinn í skátastarfi?
Ég byrjaði í skátastarfi hjá Segli vorið 1990, gagngert til að fara á Landsmót um sumarið. Það var svo gaman á mótinu að ég hélt bara áfram að skátast og er hér enn! Ég sinnti öllum foringjastörfum í Segli, allt frá því að vera flokksforingi í að vera sveitarforingi og síðar í stjórn félagsins þar sem ég var meðstjórnandi, aðstoðarfélagsforingi og svo síðar félagsforingi. Jafnframt því var ég um tíma í fræðsluráði BÍS og svo síðar í dagskrárráði. Ég hef svo undanfarin tvö ár ca. setið sem meðstjórnandi í stjórn BÍS. Ég hef auk þess bæði leiðbeint og stýrt ótal námskeiðum og viðburðum, listinn er langur og fjölbreyttur, allt þó ákaflega skemmtilegt og spennandi, auðvitað!
Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?
Þegar stórt er spurt! Það er svo margt, sveitar- og félagsútilegurnar í Segli, allar ferðirnar í Bæli með dróttskátasveitinni Yotoo, Jamboree 1995 með Haukdælasveit, Gilwell 1998, Gilwell Park 1999, öll námskeiðin auk allra landsmótanna sem og annarra minni móta, þar sem ný vinatengsl voru mynduð og gömul treyst. Ætli stutta svarið sé ekki bara upplifunin með frábærum félögum, það er það sem var, er og verður alltaf það skemmtilegast sem ég geri í skátunum!
Hví gefur þú kost á þér sem meðstjórnanda BÍS?
Einfalt, því ég tel að ég hafi eitthvað fram að færa og geti látið gott af mér leiða. Ég trúi því að skátastarf sé eitt það allra besta sem hefur komið fyrir mig og gert mig að því sem ég er í dag og ég vil hjálpa til við að leyfa öðrum að upplifa það sama.