Guðrún Stefánsdóttir

 

Framboð: meðstjórnandi í stjórn BÍS

Ferill þinn í skátastarfi?

Ég var vígð sem skáti haustið 1992 og á því 30 ára skátaafmæli í haust. Ég er Hraunbúi af lífi og sál. Fyrstu skátaárin mín starfaði ég í Vogabúum sem bar deild innan Hraunbúa í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar var ég flokksforingi, sveitarforingi og deildarforingi. Leið mín lá svo í Háskólann á Akureyri og þar gerðist ég sveitarforingi í skátasveitinni Skeifunum, Klakki. Eftir Háskólann flutti ég aftur á höfuðborgarsvæðið og hef nánast óslitið starfað í Hraunbúum síðan, annað hvort sem sveitarforingi og eða setið í stjórn Hraunbúa. Ég hef farið á ótal námskeið í gegnum árin en þar stendur Gilwell 2004 algjörlega uppúr. Ég fór á Jamboree 1995 og í ferð í Gilwelpark 1999. Ég var í dagskrárstjórn Landsmóts 2008, sá um fjölskyldubúðir ásamt öðrum Hraunbúum á Landsmótum 2012 og 2014 og var sá um nokkra dagskrárpósta á Landsmóti 2016. Ég hef setið nokkrum sinnum í Vormótsstjórn og mæt á óteljandi skátamót sem mér finnst vera eitt það skemmtilegasta við skátastarf. Ég sat einnig í fyrstu stjórn skátagildisins Skýjaborga.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Ég elska útivist, mér finnst ekkert skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni í allskonar veðrum. Útilegur, dagsferðir, ratleikir og útiskátun finnst mér toppurinn á tilverunni. Ég hef eignast marga af mínum bestu vinum í skátastarfi.

Hví gefur þú kost á þér sem meðstjórnanda?

Ég vil leggja mitt af mörkum til skátastarfs á Íslandi. Efla skátastarf í litlum sem stórum félögum, endurvekja skátastarf þar sem það hefur lagst niður og fjölga í hreyfingunni okkar. Ég tel að skátastaf hafi upp á mikið að bjóða fyrir æsku landsins og langar að við séum sýnilegri í því frábæra starfi sem við nú þegar erum að framkvæma.