Elín Esther Magnúsdóttir
Framboð : Stjórn Skátaskólans
Ferill þinn í skátastarfi?
Skáti frá 1988.
Flokksforingi, sveitarforingi og félagsforingi í Fossbúum 1989-2000.
Sumarbúðir skáta 1993-1995.
Gilwell 1994-1995.
Alheimsmót í Hollandi 1995.
Leiðbeinandi á foringjanámskeiðum frá 1995.
Umsjón með DS. Ögrun fyrir SSR 2000-2002.
Starfsmaður og sveitarforingi í Garðbúum 2001-2003.
Fræðslustjóri BÍS 2001-2003.
Fararstjóri BÍS á Evrópumót skáta í Englandi 2005.
Dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni 2014-2017.
Leiðbeinendasveitin 2021-2023.
Leiðbeinandi á fjölþjóðlegu Gilwell í Slóveníu 2022-2024.
Í gegnum tíðina verið þátttakandi á ráðstefnum, námsstefnum og námskeiðum um útinám, dagskrárgerð, óformlegt nám, samskipti, inngildingarmál, öryggi og fleira.
… og ég samdi textann við Sumarbúðalagið 1993 🙂
(Með fyrirvara um að ártölin séu rétt munuð.)
Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?
Það er erfitt að velja eitthvað eitt úr starfi sem hefur verið stór hluti af mínu lífi í meira en 30 ár, ég hef verið svo ótrúlega heppin og fengið að upplifa mjög margt í skátastarfi. Einstakir viðburðir eins og Gilwell 1994, námstefna í Tyrklandi um dagskrá fyrir ungt fólk árið 2000, ferð til Kandersteg 2023 og Slóveníu-Gilwell 2022 og 2023 eru viðburðir sem ég mun aldrei gleyma.
Þjálfunar- og fræðslumál hafa líka verið mér hugleikin lengi, og ég nýt þess enn að læra og prófa eitthvað nýtt í þeim efnum.
Í fullri hreinskilni eru það þó árin á Úlfljótsvatni sem hafa líklega haft mest áhrif á líf mitt í seinni tíð. Þar naut ég hverrar mínútu, og er þakklát fyrir þau fjölmörgu tækifæri sem mér gáfust í starfinu til að læra og vaxa.
Hví gefur þú kost á þér í stjórn Skátaskólans?
Eins og fyrr segir hef ég mjög gaman af þjálfunar- og fræðslumálum. Eftir að hafa nýverið starfað tvö ár með algjörum snillingum í Leiðbeinendasveitinni langar mig að styðja áfram við það starf og vinna að framþróun námskeiðahalds í samvinnu við Leiðbeinendasveitina og aðra vinnuhópa innan Skátaskólans. Til dæmis tel ég að áframhaldandi vinna við námskrár skólans geti skilað sér í enn markvissari þjálfun foringja, en ég er þeirrar skoðunar að foringjaþjálfun sé eitt besta verkfæri hreyfingarinnar til að stuðla að góðu skátastarfi. Þar hefur mikið og gott verk verið unnið síðustu ár, en þar leynast líka mörg ný tækifæri.
Ég hef líka mikinn áhuga á hvers kyns öryggismálum og hefði áhuga á að koma að þeim, ekki síst á grundvelli þjálfunar og fræðslu. Þar má til dæmis nefna fræðslu og/eða verkferla sem snúa að barnavernd (Safe From Harm) og áhættugreininga í skátastarfi.
Ég held að Skátaskólinn sé því sá vettvangur sem passar best fyrir þau verk sem mig langar að fást við næstu misseri.