Vinnuhópur – ‘In the shoes of the migrant’

Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra borðspilið ‘In the shoes of the migrant’  sem WOSM og WAGGS í Evrópu þróuðu. Tilgangur spilsins er að veita ungmennum óformlegan og lifandi vettvang til að fræðast um og ímynda sér aðstæður flóttafólks og fólks á farandsfæti.
Frekari upplýsingar eru hér fyrir neðan en áhugasamir skulu hafa samband við sigurgeir@skatar.is

Hvað kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?:
Við óskum eftir fólki sem er
– 16 ára og eldri
– Fært í ensku
– Ástríðufullt
– Áhugasamt um að fræðast betur um þessi málefni á Íslandi
– Hefur þegar reynslu af þessum málefnum á Íslandi

Gagnaöflun:
Í spilinu eru margar spurningar og efni unnið út frá tölfræði, reglugerðum, lögum og aðstæðum Evrópusambandsríkja. Mikið af því á erindi við íslensk ungmenni en annað í spilinu er nokkuð fjarri þeirra veruleika.
Mikið af gögnum er að finna á opinberum vefsíðum stofnanna sem má nýta til að semja spurningar og fleira sem spinnist inn í spilið sem fræðir ungmenninn í leiðinni um íslenskar aðstæður flóttamanna og fólks á farandsfæti.

Þýðing:
Spilið sjálft, spurningarnar, leiðbeiningarnar og fræðslubæklingur sem fylgir spilinu er allt á ensku. Flest ungmenni kunna auðvitað góða ensku og gott er að eiga enska útgáfu líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku.
Þess vegna þarf að þýða alla reiti og stuðningsefni með spilinu.

Aðgerðir:
Spilið er ekki eingöngu hannað til að skapa lifandi aðstæður fyrir ungmenni til að fræðast um og velta fyrir sér málefnum flóttafólks og fólks á farandsfæti heldur einnig til að hvetja þátttakendur til þess að grípa til aðgerða í sínu nærumhverfi. Þess vegna fylgir ‘Get Active’ bæklingur spilinu en hann er órjúfanlegur hluti spilsins. Þar er sagt frá flottum verkefnum annarra landssamtaka skáta í Evrópu en við viljum einnig segja frá sjálfboðaliða reknum verkefnum hérlendis, t.a.m. þeim sem Rauði krossinn stendur fyrir.
Kostur væri ef vinnuhópurinn myndi einnig kynna sér önnur sjálfboðaliðasamtök sem vinna að málaflokknum og þeirra verkefnum til að segja frá þeim.

Innleiðing:
Þegar spilið er tilbúið þarf að fræða sjálfboðaliða innan hreyfingarinnar og jafnvel víðar um það og notkun þess. Mikilvægt er að spilið sé kynnt vel því tilgangur þess er göfugur og mikilvægt er að rétt sé farið að með ungmennunum okkar.

Tímalína:
Vinnuhópurinn mun hittast stöku sinnum í vor og fram að sumri, fara yfir stöðu verkefnisins og skipta þeim verkefnum sem eftir eru á milli sín. Áætluð skil vinnunnar eru í byrjun sumars. Áhugasamir hafi samband við sigurgeir@skatar.is

No photo description available.