Umsókn um stöðu sveitarforingja á Júrójambó 2020

Evrópumót skáta fer fram í Gdańsk, Póllandi dagana 27.-7. ágúst. Bandalag íslenskra skáta myndar fararhóp á mótið og munu 45 íslenskir þátttakendur fara út á mótið. Þá eru einnig 15 IST liðar skráðir á mótið en hægt verður að skrá sig sem IST liða til 30. nóvember 2019. Það er því ljóst að það stefnir nokkuð fjölmennur hópur til Póllands og vonum við að sem flestir bætist við hópinn til viðbótar!

FRAM AÐ MÓTI:
Hlutverk sveitarforingja fram að móti er að fylgjast vel með upplýsingagjöf frá fararstjórn mótsins og bregðast skjótt og örugglega við þegar óskað er eftir viðbrögðum frá þeim. Sveitarforingjar skuldbinda sig til að taka frá helgina 17. -19. apríl 2020 til að fara í undirbúningsútilegu ásamt þátttakendum íslenska fararhópsins og fararstjórum. Sveitarforingjum er einnig ætlað að skipuleggja og framkvæma saman einn hitting með þeim þátttakendum sem verða í þeirra sveit og síðan verða þeir að mæta á einn foreldrafund á sumarmánuðum.

Á FERÐALAGI KRINGUM MÓTIÐ:
Þegar farið er á mótið skuldbinda sveitarforingjar sig til að fylgja fararhópnum frá Keflavíkurflugvelli og á mótsvæði. Þeir eru skyldugir til að dvelja með þátttakendum á mótsvæði og styðja þau í þátttöku og tryggja velferð þeirra á meðan að á mótinu stendur. Að móti loknu verður dvalið á gistiheimili í Gdańsk í þrjár nætur og borgin könnuð fram að heimför. Yfir það tímabil skuldbinda sveitarforingjar sig til að dvelja með fararhópnum og fylgja þátttakendum í könnunarferðum sínum um borgina. Þá er einnig krafa að sveitarforingjar fylgi hópnum heim á leið til Keflavíkurflugvallar þar sem starfi þeirra líkur eftir að allir þátttakendur eru komnir í gegnum flughöfnina.

UM SAMSETNINGU SVEITA:
Íslensku þátttakendurnir verða 45 í 5 ólíkum flokkum, sveitir á mótinu samanstanda hins vegar af 4 flokkum. Því er ljóst að í hið minnsta 1 flokkur verður í alþjóðlegri sveit á mótinu ásamt skátaflokkum frá öðrum löndum. Líkur eru hins vegar á því að þátttakendahópnum verði skipt um þannig að 3 íslenskir skátaflokkar myndi alþjóðlega sveit með 1 erlendum skátaflokki og 2 íslenskir skátaflokkar myndi aðra alþjóðlega sveit með 2 erlendum skátaflokkum. Því er afar mikilvægt að umsækjendur séu jákvæð og áhugasöm um að starfa saman með erlendum sveitarforingjum á meðan að á mótinu stendur og að styðja við og tryggja velferð erlendra þátttakenda eftir bestu getu.

ÁBYRGÐ OG REGLUR:
Sveitarforingjar þurfa að hafa sótt ‘Verndum þau’ á síðastliðnum 4 árum eða sækja það áður en að haldið verður á mótið. Sveitarforingjar þurfa samkvæmt 10. grein Æskulýðslaga nr. 70/2007 að gefa BÍS heimild til að tryggja að þau hafi aldrei fengið dóm fyrir kynferðisafbrot eða dóm fyrir fíkniefnabrot síðastliðin 5 ár og þurfa að skila inn drengskaparheiti áður en þau taka til starfa. Sveitarforingjar starfa samkvæmt skátaheiti, skátalögum og grunngildum BÍS en þar að auki samkvæmt siðareglum og stefnum Æskulýðsvettvangsins. Sveitaforingjar eru meðvitaðir um að forvarnarstefna BÍS og 10. grein Æskulýðslaga nr. 70/2007 banna alla neyslu áfengis og annarra vímuefni í ferðum með börnum. Sveitarforingjar tileinka sér jákvætt hugarfar, samvinnufýsni, lausnarmiðaða hugsun og eru aðgengileg í samskiptum við bæði þátttakendur, fararstjórn og aðra samstarfsaðila í kringum ferðina.

Sveitarforingjar leggja sig alla fram um að hafa gaman!

FARARSTJÓRN:
Fararstjórn skipar: Benedikt Þorgilsson (s. 8675212, vesturas@gmail.com), Sigurgeir B. Þórisson (s. 8670604, sigurgeir@skatar.is) og Þórey Lovísa Sigmundsdóttir (s. 6623465, totalius1@gmail.com). Ekki hika við að setja ykkur í samband ef eitthvað skyldi vera óljóst.