Flakk og flandur

Útivistaráskorun skáta sumarið 2020

Sumarið 2020 verður útivistar- og ferðasumarið mikla! Þar sem ekki er mikið um utanlandsferðir í sumar er kjörið að nýta tækifærið og eyða tíma úti í náttúrunni okkar og prófa nýja hluti. Ungmennaráð Bís setti saman áskorun sem er beint að rekka- og róverskátum en öllum er velkomið að taka þátt. Til að taka þátt þarf að framkvæma áskorun, taka mynd og setja á samfélagsmiðla með myllumerkjunum #flakkogflandur og #skátarnir eða senda myndirnar á netfangið ungmennarad@skatar.is ef þið viljið ekki birta þær á netinu. Áskoranirnar eru miserfiðar og miserfitt að ná fullkláruðu verkefni á mynd en hér ætti að vera eitthvað fyrir alla og við treystum á að allir sýni heiðarleika við að klára einstakar áskoranir og senda þær inn. Allir sem klára a.m.k. fimm áskoranir fá þátttökuverðlaun og þau sem klára þær allar fá sérstaka viðurkenningu.

Síðasti dagurinn til að senda inn myndir er 31. ágúst

Gakktu á 5 fjöll

Það eru ótalmörg fjöll um allt land sem gaman er að klífa. Það er skemmtilegast að fara á fjöll sem þú hefur ekki farið á áður, fara nýja leið upp fjall sem þú þekkir vel eða reyna að bæta tímann þinn frá því þú labbaðir það seinast.

Klifra 

Klifur er að verða sífellt vinsælla með tímanum enda mjög góð og oft spennandi líkamsrækt. Til að klára þessa áskorun þarf að klifra samtals 50 metra og læra að þræða áttuhnút.

Ef þú vilt klifra úti er gott að skoða https://www.klifur.is/ til að finna upplýsingar um klifurleiðir á víð og dreif um Ísland. Ef þú vilt klifra inni getur þú skoðað staði eins og Klifurhúsið, Smiðjuloftið eða Klifurfell.

Plokka rusl

Fylla heilan svartan ruslapoka af rusli úr umhverfinu. Verum dugleg að kíkja í smá göngutúr í hverfinu okkar eða út á landi í sumar og plokka rusl. Þú getur t.d. skellt í eitt tiktok af þér plokka rusl. Ekki gleyma að setja #flakkogflandur og #skátarnir þegar þú birtir myndbandið.

Ferðast samtals 200 km á eigin vegum

Það má hjóla, synda, ganga, hlaupa, róa o.fl. til að ná þessum kílómetrum. Aðalmálið er að það má bara ekki nota tæki knúin af orku annarri en þinni eigin. Þú ræður hvernig þú skráir kílómetrana en munum að skáti er heiðarlegur.

tjald

10 nætur í tjaldi

Þetta sumar eru útilegusumarið mikla. Þú þarft að sofa samtals tíu nætur í tjaldi en þær þurfa ekki endilega að vera allar í röð.

Sofa undir berum himni

Það er fátt betra en að sofna undir stjörnunum (eða miðnætursólinni) og anda að sér fersku lofti alla nóttina (við mælum ekki með að gera þetta í rigningu).

Synda í sjónum

Hvað er betra á heitum degi en að skella sér í kaldan sjóinn og synda smá. Góðar ráðleggingar fyrir byrjendur í sjósundi má finna hér. 

Eldamennska í náttúrunni

Umhverfið á Íslandi býður oft upp á frábært útsýni þar sem þið getið eldað og jafnvel fundið hráefni til að nota í matseldina. Til að klára þessa áskorun þarf að elda minnst þriggja rétta máltíð úti í náttúrunni og þarf máltíðin að innihalda minnst 2 hráefni sem finnast þar. Kynnið ykkur vel hvað þið notið úr náttúrunni, passið að það megi örugglega borða það. Auk þess skulu þið gæta fyllstu varúðar ef þið eruð með opinn eld úti og í kringum annað fólk.

Prófa nýja íþrótt

Það er alltaf gaman að stíga út fyrir þægindaramman. Margir æfa einhverja íþrótt en eiga enn eftir að prófa aðrar íþróttir. Hérna eru nokkrar hugmyndir af íþróttum sem þú hefur mögulega ekki prófað en ef þú hefur prófað þær allar þá verður þú að nota hugmyndaflugið og finna nýja!  

    • Sjálfsvörn, crossfit, fótbolti, handbolti, körfubolti, dans (tiktok), blak, lyftingar, kayak, ruðningur, badminton, borðtennis, spretthlaup, golf, hjólaskautar, hjólabretti, keila og svo margt fleira.

Synda í stöðuvatni

Tilvalin dagskrá fyrir eina helgi í sumar væri að skella sér í einn af þeim mörgu skátaskálum sem standa við stöðuvatn og taka sundsprett í vatninu til að hressa sig við. 

  • Hugmyndir: Úlfljótsvatn, Skátalundur við Hvaleyrarvatn og Skátafell við Skorradalsvatn

Sigla bát eða fleka

Það er alltaf gaman að skella sér út á vatn og blotna smá. Þú getur til dæmis skellt þér á Úlfljótsvatn og kíkt á bátaleiguna þar eða reynt á sköpunargáfu þína og byggt þinn eigin fleka. Passaðu bara að allir séu vel syndir áður en flekanum er siglt á vatni. 

sigla akureyri moot

GANGI YKKUR VEL

#flakkogflandur

#skátarnir