Góðborgari
Um færnimerkið
Eitt æðsta markmið skátahreyfingarinnar er að stuðla að betri heimi. Að hugsa um hag annarra, sýna góðvild og vera hjálpsamur kann að virðast sjálfsagt en við þurfum stundum að minna okkur á hvernig við getum best komið að gagni og hjálpað samborgurum okkar.
Kröfur
Að gera góðverk er þegar þú gerir eitthvað sem hjálpar öðrum eða léttir þeirra lund, án þess að þurfa að gera það eða fá fyrir það umbun. Til að fá færnimerkið “Góðborgari” þarftu að ígrunda hvort og þá hvernig þú hefur gert góðverk. Haltu dagbók í fyrirfram ákveðinn tíma, sem þú ákveður í samráði við flokkinn/sveitina þína og foringja, og skrifaðu í hana, límdu í hana myndir sem þú tekur eða teiknaðu þau góðverk sem þú gerir á tímabilinu. Þið getið t.d. byrjað verkefnið á fundi, athugað framvindu á næstu tveimur fundum og endurmetið það svo á þeim fjórða. Markmiðið er svo að reyna að gera eitt góðverk á hverjum degi. Það er kannski ekki alltaf hægt en reyndu samt alltaf að finna einhverja leið til að hjálpa til og leggja hönd á plóg.