Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #MAÍ
Alþjóðaráð leitar að íslenskum skátaflokkum til að taka þátt í Smáþjóðaleikum skáta, Euro-Mini-Jam, sumarið 2024. Smáþjóðaleikar skáta er sjö daga skátamót einungis fyrir þjóðir sem eru með færri en milljón íbúa. Mótið verður haldið í Gíbraltar 28. – 3. ágúst 2024. Mótið flakkar á milli gestgjafa og var það árið 2018 í Færeyjum, árið 2016 í Mónakó, árið 2013 í Liechtenstein og árið 2010 á Íslandi þar sem mótið var haldið í fyrsta skipti.
Þátttakendur eru skátar á aldrinum 13-16 ára. Hver þjóð fær pláss fyrir 2 skátaflokka á mótinu fyrir þátttakendur á þessum aldri. Hver skátaflokkur samanstendur af 6-8 þátttakendum og 2 foringjum. Alþjóðaráð leitar því að skátaflokkum sem hafa áhuga á að taka þátt!
Þeir skátaflokkar sem hafa áhuga á að fara á mótið fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta þurfa að sækja um með því að svara eyðublaðinu hér að neðan og skila inn myndbandi á netfang alþjóðaráðs (althjodarad@skatarnir.is) þar sem þau leysa nokkur verkefni.
Verkefnin verða síðan metin eftir skráningarfresturinn er liðinn og fá þá flokkarnir tilkynningu um hvort þau urðu fyrir valinu.
Um myndbandið og verkefnin:
Reglur:
- Myndbandið má ekki vera lengra en 10 mínútur
- Skátaflokkurinn kynnir nafn flokksins, skátafélags og nöfn allra meðlima flokksins
- Mikilvægt er að sýna vel og vandlega þegar verkefni eru leyst
Verkefnin:
- Semja flokkshróp og flytja það
- Kveikja eld með því að nota að mesta lagi fimm eldspýtur
- Segja “ég er skáti” á tíu mismunandi tungumálum
- Gera góðverk sem hefur áhrif á samfélagið
- Byggja katapúlt með sykurpúðum og spaghetti og ná að kasta hlut a.m.k. 50 cm