TAKMARKANIR Á SKÁTASTARFI VEGNA COVID-19

ALMENNT UM TAKMARKANIR

Samkomutakmarkanir og leiðbeiningar yfirvalda hafa breyst hratt á undanförnu ári. Hér er gerð tilraun til að halda utan um allar þær upplýsingar og reglur sem gilda um skátastarf og hefur BÍS leitað staðfestingar frá yfirvöldum um vafaatriði.

 

Það er mikilvægt að leita leiða til þess að bjóða upp á uppbyggilegt og ævintýralegt skátastarf fyrir alla skáta á þátttakendaaldri, enda ljóst að börn og ungmenni þrá félagsstarf eftir langan aðskilnað. Þó þurfa foringjar ávallt að hafa smitvarnir í fyrirrúmi og taka ábyrgar ákvarðanir sem lágmarka dreifingu smits, en útiloka þó ekki ánægjulega upplifun skátanna. Þannig hvetjur BÍS foringja landsins til að nýta sér heimildir á ábyrgan máta.

HAFIÐ Í HUGA:

  • Hámarksfjöldi á skátafundum eru 50 skátar (20 fullorðnir).**
  • Aðstaðan skal þrifin reglulega og snertifletir sótthreinsaðir milli allra hópa.
  • Sameiginleg áhöld skulu sótthreinsuð a.m.k. tvisvar á dag (t.d. í útilegum).
  • Loftræsting skal vera í lagi og loftað reglulega út yfir daginn.
  • Bjóða skal góða aðstöðu til handþvotts.
  • Spritt skal vera aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.

YFIRLIT YFIR TAKMARKANIR


ALDURSBIL FUNDIR ÚTILEGUR GRÍMUR NÁND GILDIST.
DREKAR Leyfðir, hámark 50 Leyfðar* Nei Engin Til 28. feb
FÁLKAR Leyfðir, hámark 50 Leyfðar* Nei Engin Til 28. feb
DRÓTTIR Leyfðir, hámark 50 Leyfðar* Nei Engin Til 28. feb
REKKAR Leyfðir, hámark 50 Ekki leyfðar Já, ef ekki er hægt að virða nándarmörk 2 m Til 17. feb
RÓVER+ Leyfðir, hámark 50 Ekki leyfðar Já, ef ekki er hægt að virða nándarmörk 2 m Til 17. feb
FORINGJAR  Leyfðir, hámark 20 Ekki leyfðar   Já, ef ekki er hægt að virða nándarmörk 2 m Til 17. feb

SKÁTAFUNDIR OG ÚTILEGUR


SKÁTAFUNDIR

Sé þess kostur skal skátastarf fara fram utandyra. Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými. Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.

Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa.

ÚTILEGUR

Samkvæmt svörum frá yfirvöldum við fyrirspurn BÍS eru útilegur ungmenna á grunnskólaaldri heimilar. Það er þó grundvallaratriði að smitvarna sé gætt í hvívetna: Sameiginleg áhöld sótthreinsuð tvisvar á dag, loftað vel út og aðstaða til handþvotta góð (rennandi vatn, sápa og spritt).

 

Ráðlegt er að nýta sér heimildir en sýna þó aðgát, til dæmis með því að lágmarka blöndun hópa og miða við að fararhópur sé sá hópur sem þegar er að hittast í vikulegu fundastarfi (flokkur eða sveit).

ÞÁTTTAKA OG VIÐVERA FULLORÐINNA


SKÁTAFORINGJAR

Skátaforingjar skulu að hámarki vera 20 á skátafundum, þeim ber að gæta 2 metra fjarlægðar frá hvoru öðru og þátttakendum en bera grímu ef ekki er unnt að tryggja nálægðartakmörk. Mælst er til þess að skátaforingjar allra aldursbila beri andlitsgrímur öllum stundum á meðan að skátafundir standa yfir. Ef skátafélög hafa starfsmann gilda sömu reglur um viðkomandi og skátaforingja á skátafundum.

FORRÁÐAMENN OG AÐSTANDENDUR

Forráðamenn og aðstandendur þátttakenda skulu ekki koma inn í skátaheimili eða á skátafundi nema brýna nauðsyn beri til en þá skulu þau vera með andlitsgrímu. Um foreldra og aðstandendur sem leiðbeina á skátafundum gilda að sjálfsögðu sömu reglur og um skátaforingja.

AÐRIR AÐILAR

Öll umferð annarra en skátaforingja og þátttakenda skal bönnuð á svæði skátafélagsins meðan skátafundir standa yfir nema brýna nauðsyn beri til en þá er grímuskylda.


Reglugerðir:

*Skv. Staðfestingu Menntamálaráðuneytisins við erindi BÍS, 20. janúar.

**Skv. Túlkun á ákvæði um íþróttastarf í Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem staðfest hefur verið af Menntamálaráðuneytinu að skátafundir falli undir sama ákvæði.