Kraftur í boði Leiðbeinendasveitarinnar

Leiðbeinendasveit skátanna hefur haft í mörgu að snúast síðastliðinn mánuð en í nóvember hefur sveitinn haldið tvö leiðtogaþjálfunarnámskeið, DróttKraft og FálkaKraft.

55 dróttskátar á Blönduósi

Skátar norðan og sunnan heiða hittust í Glaðheimum á Blönduósi helgina 15.-17. nóvember og gerðu sér glaða daga. Reyndar frestaðist ferðin til ósa Blöndu ögn vegna veðurs en við hittumst hress í hádegi á laugardag eftir gistingu í skátaheimili Landnema fyrir sunnan og skátaheimili Klakks fyrir norðan.

Þema helgarinnar var Landvættir en skátarnir áttu m.a. að finna nafnið á sínum landvætti. 55 skátar frá Akranesi, Garðbúum, Landnemum, Skjöldungum, Ægisbúum, Mosverjum, Heiðabúum og Klakki blönduðu sér í 8 flokka og unnu saman að ýmsum verkefnum, m.a. að undirbúa útilífsmiðstöð í Hrútey við Blönduós, kveiktu eld og lærðu á Hollendinga, undirbjuggu starfsáætlun og héldu æðislega kvöldvöku.

Mjög skemmtileg helgi er að baki og við vonumst til að geta tengt skátafélög víðsvegar að af landinu saman í meira mæli á næstu námskeiðum.

Við sendum þakkir til allra þátttakenda og sjálfboðaliða sem aðstoðuðu okkur við að gera þennan viðburð að veruleika!

Fyrsti FálkaKraftur fyrir norðan

Sveitarforingjar fálkaskátasveitanna Arna og Skeifa í Klakki báðu Leiðbeinendasveitina um að halda Fálkakraft hjá sér og var það okkur sönn ánægja að verða við þeirri ósk.

Námskeiðið var haldið í Valhöll laugardaginn 23. nóvember í sveitarútilegu fálkaskátasveitanna sem 15 skátar tóku þátt í. Þema námskeiðsins var heimshornaflakk þar sem skátarnir heimsóttu m.a. Palavúflugvöll og fóru í ímyndað útsýnisflug yfir Akureyri til að skoða hvar þau vilja bæta nærsamfélag sitt með því að vinna samfélagsverkefni.

Draumur fálkaskátanna í Klakki er að byggja tívolí í bænum, það verður spennandi að fylgjast með því.

Þá hönnuðu skátarnir póstaleik þar sem viðfangsefnið var skátalögin og póstarnir tengdir þeim. Sem dæmi má nefna að „Skáti er glaðvær“ var túlkað með því að renna sér í snjónum niður svakalega skemmtilega brekku.

Við þökkum skemmtilegri fálkaskátasveit fyrir að fá okkur í heimsókn norðum og hlökkum til að fara í heimsókn til fleirri sveita á árinu.

Hvað gerir Leiðbeinendasveitin?

Leiðbeinendasveitin er vinnuhópur á vegum Skátaskólans. Hlutverk hennar er að sjá um leiðtogaþjálfun á vegum BÍS, undirbúa, framkvæma og meta námskeið.

Í leiðbeinendasveitinni er þegar hópur öflugra leiðtoga en það er alltaf opið fyrir einstaklinga sem eru áhugasöm um að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga og vill auka gæði þjálfunar og fræðslu á vegum Bandalags íslenskra skáta. Leiðbeinendasveitin vinnur að því að auka leiðtogafærni og valdefla unga skáta til virkrar þátttöku í skátastarfi sem og í daglegu lífi þeirra. Leiðbeinendasveitin miðlar þekkingu sinni og reynslu til annara skáta og vinnur að því að auka áhrif skátastarfs á íslenskt samfélag.

Nánari upplýsingar um starf sveitarinnar má finna hér.