Köfuðum dýpra á Neista 2025

Nú um helgina komu hátt í 70 manns saman á Úlfljótsvatni og tóku þar þátt í Neista 2025. Neisti er árlegur helgarviðburður þar sem skátar, 16 ára og eldri, fá tækifæri til að læra nýja færni, kynnast öðrum skátum og byrja nýtt skátaár á því að viðhalda skátaneistanum sínum. Neisti í ár var með breyttu sniði en vanalega, nú völdu þátttakendur sér leið eftir áhugasviðum og nýttu helgina til að kafa djúpt í valið viðfangsefni. Leiðirnar sem stóðu þeim til boða voru þrjár; dagskrá, útivist og stjórnun skátafélaga.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Helgin hófst á setningarathöfn þar sem þátttakendum var skipt í flokka og hin sívinsæla flokkakeppni hófst. Að því loknu fóru þátttakendur í póstaleik þar sem verkefnið var að byggja kafbát sem gerði þeim kleift að kafa djúpt ofan í hafsjó þeirrar þekkingar sem þátttakendur völdu að tileinka sér. Hver leið táknaði eina stöð innan kafbátsins en það sýndi okkur einnig að þó þátttakendur væru á ólíkum leiðum yfir helgina þá virkar kafbáturinn ekki nema við séum öll að vinna saman – líkt og í skátastarfinu.

Kvöldið endaði í Ólafsbúð þar sem þátttakendur áttu huggulega stund saman við varðeldinn.

 

Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn og hláturjóga og svo byrjaði dagskráin þar sem þátttakendur dýfðu sér ofaní þá leið sem þau völdu. Þátttakendur tókust á við ýmis verkefni, bæði utandyra og innandyra og var góður andi yfir hópnum. Á meðal viðfangsefna var leikjasmiðja, táknræn umgjörð, hvernig virka stjórnir skátafélaga, og snjóflóðaýla leit.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Að kvöldi var svo komið að hinum klassísku Eldleikum og að þeim loknum var haldin öflug kvöldvaka þar sem hópurinn söng og hló saman til skiptis.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Á sunnudeginum kláruðu hóparnir sína leið og tóku svo til hendinni og gengu frá öllu eins og skátum einum er lagið.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka helgi, takk fyrir samveruna og takk öll sem aðstoðuðu við skipulag og gerðu helgina að veruleika.

Gleðilegt nýtt skátaár!

Mynd: Andrea Dagbjört