Ævintýri á Fálkaskátamóti

Síðastliðna helgi mættu 180 skátar af öllu landinu á Þingvelli á Fálkaskátamót þar sem framundan beið þeim stútfull dagskrá og fjör að víkingasið. Þátttakendurnir voru fljótt fluttir 800 ár aftur í tímann til að hjálpa Snorra Sturlusyni og fleiri höfðingjum að afstýra Ragnarökum sem voru yfirvofandi. Sú spá rættist heldur betur þegar þátttakendur vöknuðu morgunin eftir við fjúkandi tjöld, sem varð til þess að mótið var fært yfir á Úlfljótsvatn. Færsla mótsins gekk vonum framar, þar sem samtakamáttur skátahreyfingarinnar skein í gegn. Skátar mættu úr öllu áttum til að hjálpa til og stuttu seinna var risin ný tjaldbúð á Úlfljótsvatni. Skátarnir létu ekki flutningana slá sig út af laginu og nýttu sér þá frábæru dagskrámöguleika sem Úlfljótsvatn hefur upp á að bjóða; að klifra í klifurturninum, sigla á bátum, föndra, heimsækja Skátasafnið og fara á ótal kvöldvökur svo eittvað sé nefnt. Hápunkturinn var þó gleðigangan og diskóblótið, hinsegin partý mótsins. Skátarnir fagna jú alltaf fjölbreytileikanum, þó þeir skipuleggi óvart skátamót á hinsegindögum. Eftir að hafa séð samtakamátt, vinsemd og bræðralagið milli ættana á mótinu ákváðu höfðingjarnir að koma á friði, sem reyndist vera það sem þurfti til að koma í veg fyrir Ragnarök. Að lokum gátu skátarnir því snúið aftur til síns tíma. Því má segja að þrátt fyrir erfiðar aðstæður gekk mótið vonum framar, þökk sé mikilli samvinnu og ómetanlegri aðstoð foringja og sjálfboðaliða mótsins. Allir fálkaskátarnir komu heim með bros á vör, reynslunni ríkari.

Privacy Preference Center