Eftir tveggja ára undirbúning varð ferðin loksins að veruleika. Dróttskátasveitin Hvíta Fjöðrin í Ægisbúum hélt í ævintýralega ferð til Vässarö í Svíþjóð dagana 21. – 28. júlí 2025. Eyjan er í eigu skáta frá Stokkhólmi og tekur hún á móti tugi þúsunda skáta á hverju ári. Hópurinn samanstóð af 20 þátttakendum (16 dróttskátum, 2 foringjum og 2 foreldrum) sem lögðu öll upp í ferð sem mun seint gleymast.
Fyrstu nóttina var gist í skátaheimili Sancta Maria Scoutkår í Stokkhólmi, þar sem hópurinn fór saman út að borða á pizzastað og upplifði stemninguna í borginni. Áður en ferðalagið til eyjunnar sjálfrar hófst var kíkt í verslunarmiðstöð til að klára síðustu innkaup. Þá tók við fimm klukkustunda ferðalag með lestum og strætisvögnum að bryggjunni þar sem bátur beið okkar. Bátsferðin til Vässarö var um 30 mínútur í frábæru veðri með fallegu útsýni yfir sænsku eyjarnar í kring. Við komuna beið okkar traktor sem flutti allar töskurnar á tjaldsvæðið. Þar fengum við afhendan allan þann tjald- og eldunarbúnað sem að við þurftum. Efrir að tjöldin voru reist endaði fyrsta kvöldið á sjósundi og heimsókn í saununa við bryggjuna.
Þó svo að moskítóflugurnar væru heldur ágengar í ljósaskiptunum létu skátarnir það ekki á sig fá. Dagskráin á Vässarö var fjölbreytt og skemmtileg. Í boði voru siglingar á seglskútum, kajakferðir, padel board, klifur, göngur, leikir og endurnærandi ferðir í saunu og sjó. Skátarnir reistu eigin tjaldbúð og skiptust á að elda máltíðir fyrir hópinn. Tveir skátar tóku þá ákvörðun að sofa í hengirúmum alla vikuna, sem gekk ótrúlega vel og stór og glæsileg fánastöng var reist í miðju tjaldbúðarsvæðinu. Froskarnir á eyjunni létu ekki sitt eftir liggja og kíktu iðulega í heimsókn í tjöldin, sem vakti mikla kátínu.
Eftir sex dásamlega daga á Vässarö var komið að kveðjustund. Hópurinn hélt aftur heim á leið með stuttu stoppi á McDonalds á flugvellinum sem þótti skemmtilegur endapunktur á ferð sem einkenndist af gleði, samvinnu, náttúru og ævintýrum.
Ferðin til Vässarö var einstök upplifun fyrir Dróttskátana og er sannarlega eitthvað sem fleiri skátafélög ættu að íhuga.
Dagur Sverrisson, sveitarforingi Hvítu Fjaðrarinnar








