Grein eftir Kolbrúnu Ósk Pétursdóttir, skátaforingja í Garðbúum, sem birtist í tímariti Hinsegin daga.
Skátastarf hefur verið á Íslandi í yfir 100 ár og þó að við „séum öllum hnútum kunnug“ kunnum við líka að fylgja tímanum. Skátarnir eru í stöðugri þróun í takt við samfélagið og skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni að læra í gegnum leik, verkefni, samveru og útivist. Við trúum því að besta leiðin til að vaxa sé að prófa eitthvað nýtt, vinna með öðrum og fá að vera nákvæmlega eins og maður er. Markmið skátahreyfingarinnar er að skilja heiminn eftir betri en við fundum hann – mikilvægt og stórt markmið sem þýðir að við hugsum um náttúruna og samfélagið auk þess sem við sköpum rými þar sem öll fá að vera þau sjálf.
Ég byrjaði í skátunum 18 ára gömul, frekar seint miðað við flest, þá nýkomin heim úr skiptinámi. Heimkoman reyndist mér erfið: ég var smá týnd og vissi ekki alveg hvert ég stefndi. Þá kom vinkona mín og bauð mér að vera skátaforingi með sér í skátafélagi sem var að endurvekja skátastarfið hjá sér. Ég ákvað að slá til þótt ég vissi ekki alveg út í hvað ég var að fara.
Þar sá ég hversu dýrmæt gildi skátanna eru og hversu mikil áhrif starfið getur haft – bæði á börnin og okkur sem leiðum það. Það var þó ekki fyrr en á mínu fyrsta skátamóti sem ég upplifði þessa tilfinningu: Ég er skáti. Ég var hluti af fjölbreyttu og fallegu samfélagi þar sem öll fá að vera þau sjálf. Þar kviknaði löngunin hjá mér til að vaxa, prófa eitthvað nýtt og einfaldlega vera ég sjálf. Ég kom líka frekar seint út úr skápnum og eftir að ég gerði það tók það mig alveg smá tíma að þora að taka þátt í hinsegin samfélaginu. Mér fannst ég ekki nógu hinsegin til að vera með, vildi ekki taka pláss frá öðrum sem ég hélt að ættu meira heima þar. En þegar ég leyfði mér að stíga inn í hinsegin samfélagið small þetta fyrir alvöru. Ég fann að þessi tvö samfélög – skátahreyfingin og hinsegin samfélagið – eru ekkert svo ólík. Þau standa fyrir frelsi, fjölbreytileika og virðingu. Að við fáum að lifa okkar lífi – frjáls undan fordómum, mismunun og útilokun. Að við fáum að vera við sjálf og að það sé í lagi.
Skátarnir í Gleðigöngunni
Skátarnir hafa tekið þátt í Gleðigöngunni af fullum krafti frá 2014. Við mætum í skátabúningunum okkar, með regnbogafána, syngjandi og hlæjandi og sendum samfélaginu skýr skilaboð: Fjölbreytileikanum er ekki bara sýnt umburðarlyndi – heldur virkilega fagnað!
Við viljum að öll tilheyri og sýna að skátasamfélagið stendur með réttlæti, mannréttindum og jafnræði. Hér þarf enginn að fela sig eða aðlaga sig til að passa inn! Það er ástæðan fyrir því að við göngum í Gleðigöngunni. Þetta er skemmtileg og falleg stund sem við eigum með vinum og fjölskyldu en það er líka gríðarlega mikilvægt. Þetta er tákn um það samfélag sem við viljum búa í, þar sem öll fá að vera með. Þetta er stórt verkefni og við ætlum að leggja okkar af mörkum um ókomna tíð.
Ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í skátunum. Og ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í hinsegin samfélaginu. Og í dag er ég stolt af því að fá að leggja mitt af mörkum til beggja þessara samfélaga – þar sem fjölbreytileikanum er fagnað af alvöru. Því að einmitt þannig skiljum við heiminn eftir betri en við fundum hann.
Lesa má tímaritið í heild sinni hér.