
Skátastarf snýst um miklu meira en að binda hnúta og ganga á fjöll. Skátastarf snýst um að finna sitt fólk, læra að treysta sjálfu sér og öðrum og finna öryggið til að vera nákvæmlega þú sjálft. Fyrir hinsegin ungmenni getur það skipt sköpum að tilheyra hópi þar sem fjölbreytni er ekki bara liðin heldur fagnað. Þátttaka skátanna í Gleðigöngunni er löngu orðinn fastur liður í dagskrá sumarsins en Hjálpasveit skáta í Reykjavík hefur tekið þátt í göngunni með skátunum frá upphafi. Með þátttökunni sýnum við ungu skátunum okkar í verki að skátahreyfingin sé staður þar sem þau geta verið þau sjálf, að við stöndum með mannréttindum og fögnum fjölbreytileikanum.
En skátar tóku ekki aðeins þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík á laugardaginn var heldur var fjölbreytileikanum einnig fagnað á Fálkaskátamóti á Úlfljótsvatni um helgina. Hátt í 180 fálkaskátar, foringjar og sjálfboðaliðar dönsuðu og gengu frá Friðarlautinni upp í KSÚ þar sem haldið var eftirminnanlegt diskóblót í ljósaskiptunum. Myndirnar tala fyrir sig.
Þá var Elín Esther Magnúsdóttir, rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni ein af þremur viðmælendum í þættinum Hinsegin dagar, vikur, mánuðir, ár sem sýndur var sunnudaginn 10. ágúst í tilefni hinsegin daga. Viðtalið er einlægt, skemmtilegt og hvetjandi en Elín Esther er frábær fyrirmynd fyrir unga skáta. Horfa má á þáttinn hér en innslagið með Elínu hefst á 29. mínútu.





