Daði Már Gunnarsson hefur verið ráðinn í starf tengiliðs erlendra hópa og dagskrárstarfsmanns við Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Daði mun sjá um að taka við bókunum erlendra hópa, hafa umsjón með búnaðarleigu og ferðum fyrir og eftir Landsmót skáta 2026, auk þess að vera hluti af dagskrárteymi Úlfljótsvatns og aðstoða við skólabúðir, sumarbúðir og fleira.
Daði er ekki ókunnugur Úlfljótsvatni, en fyrir utan að hafa sótt þangað námskeið og viðburði var hann dagskrárstarfsmaður í hlutastarfi síðasta vetur, og lék þá lykilhlutverk í rekstri skólabúðanna.
Daði hefur numið leiklist, bifreiðasmíði og tungumál og hefur verið virkur í skátastarfi síðan 2007. Hann hefur meðal annars verið sveitarforingi, félagsforingi, starfsmaður SSR, meðlimur í Leiðbeinendasveitinni og sveitarforingi á Jamboree í Kóreu. Daði hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og situr í dag í Alþjóðaráði.
„Ég er ánægður að hljóta þann heiður að fá að vinna á svo fínum stað, með svo góðu fólki og umvafinn náttúru sem leikur við augað,” segir Daði. “Á öðrum nótum er ég annars spenntur að fá að sinna dagskrá og vinna öll þau verkefni sem beinast að mér.”
Við bjóðum Daða hjartanlega velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi.