Í síðustu viku fóru fram Evrópuþing WOSM og WAGGGS og voru haldin í Vínarborg í Austurríki. Fararhópurinn fór út á föstudaginn þann 18. júlí og komu heim á fimmtudaginn þann 24. júlí. Fyrir hönd BÍS fóru sjö skátar út, tvö á WAGGGS þingið og fimm á WOSM þingið.
Á þinginu var margt að gera. Farið var yfir nýjar stefnur Evrópudeildar skátahreyfingunnar sem mun gilda næstu þrjú ár, kosið var í stjórnir Evrópudeildar hreyfinganna WOSM og WAGGGS og svo voru áskoranir á stjórnirnar sem voru fjörugar. Oftast þá komst þingið í gegnum þessar tillögur frekar fljótt, en eins og alltaf þá voru einhverjar tillögur sem rifist var mikið um. Í grunninn starfar Evrópuþing eins og Skátaþing gerir heima á Íslandi nema það er mikið sturlaðra og lengra. Samanlagt voru þrír dagar af þingstörfum en það voru þó ekki aðeins þingstörf heldur voru líka t.d. kynningar frá mismunandi aðilum eins og næstu stjórn fyrir Roverway sem verður haldið í Sviss árið 2028, og svo var einnig heill hellingur af smiðjum og þar má nefna t.d. smiðjur um að búa til stefnur, valdeflingu ungmenna og safe from harm.
Líklega það áhugaverðasta við það að fara í svona ferðir er samspil heimshreyfingana skáta og mismunandi skátabandalaga. Í rauninni voru þetta 3 þing sett saman. WOSM þingið WAGGGS þingið og sameiginlega þingið. Á WOSM og WAGGGS þinginu var rætt um það hefðbundna (áskoranir og skýrslur) en svo á sameiginlega þinginu var aðallega rætt um samstarf bandalaganna og hvernig ætti að styrkja það. Einnig var skemmtilegt að fylgjast með hvernig það sást í tengslanet bandalaga. Líklega besta dæmið um þetta voru Norðurlöndin. Algengt var að sjá hópa af Dönum, Svíum, Norðmönnum og Finnum að spjalla saman á göngunum og styðja við hvort annað í þingsalnum.
Annað sem var rosalegt er hversu mikið af valdamiklu og áhugaverðu fólki var á þinginu, það var frekar súrrealískt að sjá fólk ekki merkt löndum heldur heimshreyfingum eins og til dæmis má nefna WOSM stjórn sem gengur um með fjólubláan klút og í dökkblárri skyrtu. Þetta er fólkið sem tekur sumar af stærstu ákvörðunum innan skátanna sem hafa áhrif á alla skáta í Evrópu, jafnvel heiminum. Ef maður lenti á spjalli við einhvern frá öðru landi voru miklar líkur á að það væri stjórnarmeðlimur, jafnvel skátahöfðingi þess lands. En þrátt fyrir þetta þá tók maður ekki mikið eftir því í raun. Allir þarna hefðu alveg eins getað verið skátar og stjórnarmeðlimir félaga að hittast á Skátaþingi á Íslandi. Þess vegna var svo svalt að sjá einnig mikið af ungmennum á þinginu. Eitt hlutverk innan fararhópanna hét Youth delegate og það var alltaf skemmtilegt þegar þau komu með athugasemdir á umræðuna, oft skemmtilegra að hlusta á þau heldur en þau eldri.
Næsta Evrópuþing verður haldið í Flórens og við hlökkum til að sjá sem flest sækja um fyrir það!
-Helgi Þórir Sigurðsson, skátafélagið Vífill
Hægt er að lesa um stefnuna sem var kosin hjá WOSM næstu þrjú ár hér







