Samvinna, tjaldbúð og veðurviðvaranir á 2. hluta Gilwell

Um síðastliðna helgi var annar hluti Gilwell námskeiðsins á Úlfljótsvatni haldið.  Hópurinn sem nú tekur þátt í námskeiðinu hóf ferðina í febrúar og nú líkt og þá voru gular veðurviðvaranir í kortunum dagana fyrir setningu námskeiðsins.  Þrátt fyrir það reis glæsileg tjaldbúð á Hvítasunnuflötinni dagana 5. -9. júní og flokkarnir þrír komu sér vel fyrir með útieldhúsi, útilegukamínu, eldstæði og gashellum, enda er útieldun mikilvægur þáttur námskeiðsinns.  

Verkefni flokkanna var þó helst það að reyna á eigin skinni þá áskorun að vera í þéttum samskiptum og sambúð með skátaflokknum sínum.  Á þessu skrefi var áherslan á flokkastarf, samvinnu og samkennd og hjálpuðu veðurguðirnir okkur við að reyna á seiglu og þol þátttakenda með stöðugu roki og smá hagléli í hike-inu.  Skátarnir stóðust allar þessar áskoranir með prýði og skemmtu sér vel í göngunni og tjölduðu svo í skógarrjóðri þar sem langþráð skjól fannst fyrir norðanáttinni. 

Áfram var svo haldið að leggja inn hjá þeim ýmsar aðferðir til að styrkja hópinn, greina vandamál, nota jákvæð samskipti og virka hlustun auk þess að vinna með aðgengileika skátastarfs og lýðræðislegar ákvarðanir.

Við erum sérstaklega þakklát öllum þeim sérfræðingum sem hjálpuðu til við að gera námskeiðið einstakt með því að sýna okkur hvernig töfra má fram gómsætar máltíðir yfir eldi og gera tjaldbúðina flottari ásamt þeim sem deildu með okkur visku sinni og reynslu.

Á laugardagskvöld var boðið í opna kvöldvöku sem var vel sótt af eldri Gilwell skátum og var einstaklega góð stemming og sungið hátt og snjallt, auk þess sem borðin svignuðu undan kræsingum og heitu kakói með rjóma.

Það voru glaðir og þreyttir skátar sem luku námskeiðinu í sól og blíðu og öll hlökkum við til lokaskrefsins sem verður í nóvember,  þar sem við skoðum hvernig virkja má leiðtogann í sér,  bæði í skátastarfi og í eigin lífi.