Forseti fagnar með Kóreuförum
Síðastliðin sunnudag var haldið lokahóf á Úlfljótsvatni, fyrir fararhópinn á Alheimsmót skáta 2023. Veðrið lék við gestina sem nýttu sér það vel og léku sér úti og snæddu pylsur að klassískum skátasið.
Guðni Th. forseti kíkti í heimsókn sem vakti mikla lukku. Hann, ásamt Hrafnhildi Ýri, fararstjóra, og Hörpu Ósk, skátahöfðingja, afhentu þátttakendum, sjálfboðaliðum og foringjum viðurkenningjaskjal vegna þátttöku sinnar á 25. Alheimsmóti skáta í Suður Kóreu, en þessi hópur sýndi af sér mikla seiglu og dug í ferðinni og stóðu sig eins og hetjur.
Einnig var Guðni Th. forseti sæmdur gullmerki skáta sem þakkir fyrir síðastliðin ár sem verndari skátahreyfingarinnar.
Það kom ekki annað til greina en að syngja nokkur lög saman og tók forsetinn vel undir með hópnum. Eftir athöfnina var opin dagskrá á svæðinu og mátti sjá skáta klifra í klifurturninum, sigla á Úlfljótsvatni, strengja boga í bogfimi, hoppa í hoppukastala og spjalla saman. Frábær dagur á Úlfljótsvatni með skemmtilegum skátum.