Risaþrautir, eldkeppni og kvöldvaka á fálkaskátadegi

Fálkaskátadagurinn var haldinn laugardaginn 2. nóvember á 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi en í þetta sinn voru það Landnemar sem voru gestgjafar dagsins. 

 

Dagskráin hófst á póstaleik í Öskjuhlíðinni þar sem flokkarnir fóru í risamíkadó, risamyllu, leystu skátadulmál, fóru í blindandi skógargöngu, bjuggu til sjúkrabörur, reiknuðu út hæð, lengd og rúmmál undirganganna undir Bústaðaveg, gáðu til veðurs, kynntust vatnstankinum á Veðurstofuhæðinni, fluttu vatn og fleira. Í lok póstaleiksins söfnuðust allir flokkarnir saman fyrir framan Landnemaheimilið og kepptu í eldkeppni þar sem markmiðið var að brenna snæri sem strengt hafði verið yfir eldstæðin. Eftir æsispennandi póstaleik stóð flokkurinn Ostasnakk úr Garðbúum uppi sem sigurvegarar leiksins en flokkurinn fékk samtals á þriðja þúsund stig og hlaut að launum farandfánann Fálkakempur.

 

Eftir póstaleikinn var haldin kvöldvaka þar sem fálkaskátarnir tóku vel undir í söng og að henni lokinni var boðið upp á kakó og kex en rúsínan í pylsuendanum var draugahúsið sem dróttskátarnir í Landnemum höfðu sett upp í skátaheimilinu.

 

Um 100 fálkaskátar ásamt foringjum tóku þátt í Fálkaskátadeginum og veður var með besta móti. Landnemar þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum kærlega fyrir samveruna, og óska öllum skátum til hamingju með 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi!