Leiðarendi

Nú er fyrsta vikan að líða undir lok hjá hópnum okkar á Roverway og þátttakendur byrjaðir að fjölmenna á mótssvæðið í Stavanger. Hóparnir hafa farið í þvílíkt fjölbreyttar ferðir og fengið að upplifa hina ýmsu hluti.

Einn fararhópurinn fór á hefðbundið danskt landsmót, þar sem var gengið 75km, farið í zipline garð og fjöldan allan af leikjum með hinum þátttakendunum. Danirnir voru æstir í að fá að deila sínum hefðum og dagskrá með hópnum og eru Íslendingarnir okkar heldur betur þreytt eftir þetta ferðalag. Hver mínúta var skipulögð í þaula, en hópurinn náði að taka lest, sem gerði gæfu muninn fyrir þau sem fengu að upplifa það í fyrsta skipti.

Annar hópur fór í Rypetoppen, sem er þrautagarður í háloftunum, þar eru zipline ferðir yfir vötn, brýr sem eru strengdar yfir gil og stöðuvötn þar sem þátttakendurnir fengu að prófa sig áfram á standbretti. Íslenski fararhópurinn gerði gott betur en dagskráin sagði til um og skipulögðu göngu til Svíþjóðar sem var í um 3 klukkustunda fjarlægð, fengu leyfi frá ábyrgðaraðila ferðarinnar og gengu þetta í sameiningu.

Einn hópurinn fór í bæjarferð, gönguferð og vatnadagskrá þar sem hver dagur var nýtt ævintýri. Ásamt því að taka þátt í dagskráliðum, eignaðist hópurinn fjölda vina, upplifði norskt skordýralíf og böðuðu sig lækjunum í kring. 

Nú halda allir 11 hóparnir okkar á mótssvæðið þar sem verður í boði fjölbreytt skemmtidagskrá með þemum á borð við; sjálfbærni, vatnaveröld, og hæfni í útivist. Þátttakendur fá að velja sjálf hvað þau vilja gera og veðurspáin fyrir komandi viku ætti að þerra alla þá skáta sem eru að skila sér blautir til baka.