Árangur, ævintýri og undirbúningur: Crean 2025 tekur síðustu skrefin fyrir stóru ferðina!
Crean 2025 sveitin er á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir hina stóru ferð í febrúar. Helgin sem leið var stór áfangi, þar sem skátarnir komu saman við Skátalund í Hafnarfirði, tóku þátt í vetrarfærnis kynningum, gistu í tjöldum í -3° frosti og gengu 18km til Bláfjalla. Núna er ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir það sem fram undan er.
Vikan í febrúar, Ævintýrið sem sameinar
Vikan í febrúar, þar sem sveitin mun sameinast 32 írskum skátum við Úlfljótsvatn, verður stútfull af ævintýrum, fræðslu og þjálfun í vetrarfærni. Skátarnir munu læra um Tom Crean, írskan suðurskautsfara, og hetjudáðir hans, sem er mikill innblástur í þessari áskorun. Auk þess munu þau fá þjálfun í rötun og kortalestri, vetrarfærnin tekur einnig á mikilvægum þáttum eins og snjóflóðum, félagabjörgun, ganga í mannbroddum, byggja snjóhús og að draga púlku.
Ekki má gleyma að ferðin er líka tækifæri til að efla vináttu og læra hvert af öðru. Skátarnir munu einnig kynnast menningu og sögu landa hvor annars í gegnum fræðslu, samskipti og samverustundir. Þetta mun dýpka skilning þeirra og auka enn frekar ríkidæmi þessa ævintýris.
Til viðbótar við þessa þjálfun mun sveitin fara í tvær upphitunargöngur í nágrenni Úlfljótsvatns og gista tvær nætur í tjaldi. Þetta verður einstakt tækifæri til að prófa búnað, byggja upp reynslu og auka sjálfstraustið fyrir stóra daginn.
Ferðin endar með göngu frá Úlfljótsvatni í skátaskálana á Hellisheiði, þar sem hópurinn mun hvíla sig og fagna vel unnu verki. Þaðan verður ferðinni haldið áfram til Reykjavíkur, þar sem henni verður lokið með hátíðlegri athöfn og pizzaveislu – fullkominn endir á þessari mögnuðu áskorun. Vetraráskorunin Crean er einstakt verkefni sem sýnir hvað hægt er að ná þegar unnið er saman með ástríðu og þrautseigju.