Þann 14. júlí 2025 hófst ferðalag sem átti eftir að verða mikið ævintýri fyrir þátttakendur og skipuleggjendur. Þetta ævintýri var Landsmót rekka- og róverskáta sem haldið er fyrir skáta á aldrinum 16-25 ára um landið allt, mótið skiptist upp í gönguhluta og tjaldbúðarhluta. Að þessu sinni var ákveðið að ganga Vatnaleiðina frá Bifröst til Hlíðarvatns og hafa þar tjaldbúð við Hallkelsstaðahlíð. 

Eftir góða sundferð í Borgarnesi safnaðist gönguhópurinn saman við Bifröst þar sem gist var við háskólann og smurt nesti fyrir fyrsta göngudag. Frá Bifröst lögðu að stað 21 göngugarpar frá Garðbúum, Landnemum, Klakki, Skjöldungum og Ægisbúum, þriðjudaginn 15. júlí. Þar af voru fjórir skipuleggjendur mótsins og tveir sjálfboðaliðar með gríðarlega reynslu og flotta kálfa. Þessum hóp til halds og trausts voru þrír sjálfboðaliðar sem sáu meðal annars um að flytja farangur, hlúa að þreyttum löppum eftir langan dag og leyfa latari hluta skipuleggjanda að gista í fortjaldinu hjá sér.

Þar sem þátttakendur fengu að ráða eigin ræsi var lagt að stað aðeins á eftir áætlun á fyrsta degi göngunnar. Gengið var fram hjá Hreðavatni, upp Vikrafell og að Langavatni. Fjölbreytt landslag einkenndi fyrsta dag göngunnar sem var virkilega fallegur með  óvenju há tré, grýtt fjöll, mosagræna hóla, grasbrekkur, mýrlendi og falleg vötn. Skátarnir nýttu ótrúlega gott veður til þess að sóla sig, synda í vötnum og gengu í stuttbuxum og stuttermabolum alla leið. Helstu vandamálin á fyrsta degi voru tómir vatnsbrúsar, sólbruni og mýflugur sem eltu skátana upp holt og hæðir og áttu eftir að herja þau alla gönguna. Nestið var fjölbreytt og metnaðarfullt hjá skátunum, á göngunni voru flatkökurnar vinsælar ásamt hágæða hnetublöndum og í kvöldmat voru gerðar flottar núðlusúpur, bakaðar pizzur og pasta með ljúffengum ostum.

Göngudagur tvö var sá lengsti og lá um 23 kílómetra frá Langavatni til Hítarvatns. Á leiðinni þurftu skátarnir að vaða yfir á, klífa brattar brekkur í gegnum skarð, berjast við flugur og halda sér vel vökvuðum á heitum degi. Sumir skátanna ákváðu að skella sér á toppinn á Ok og fengu þar að njóta frábærs útsýnis áður en ský dró fyrir. Vatnaleiðin var ekki sú besta þegar kom að stikum og merkingum en skátarnir voru með hamar með í för til að laga skakkar stikur sem þau sáu, oftar en ekki þurftu þau að finna sína eigin leið með því að treysta á kort og kennileiti á leiðinni. Eftir langan dag komu þreyttir og vel teipaðir fætur, í boði Hansaplast, að skálanum við Hítarvatn. Þegar búið var að tjalda, teygja og borða dýrindis kvöldmat var tekinn stöðufundur með hópnum en veðurfræðingur hópsins spáði mikilli rigningu næsta dag og var ákveðið að vakna snemma til að reyna að sleppa við sem mest af henni.

Vekjaraklukkur byrjuðu að hringja klukkan sex næsta morgun og skátarnir komu hoppandi glaðir úr tjöldum sínum tilbúin að takast á við daginn. Síðasti göngudagurinn var 10 kílómetra leið frá Hítarvatni til Hallkellsstaðahlíðar við Hlíðarvatn. Eftir myndatöku stopp við magnað landslag Hítarvatns tók við mýri og löng brekka sem var öll hækkun dagsins. Hópurinn var kominn upp hálfa brekkuna þegar rigning og þoka mætti þeim en skátarnir gáfu þá bara í og drápu tímann með því að syngja skátasöngva og reyna að komast að því hver maðurinn var. Nokkrir skátar leituðu skjóls í helli þar sem tekin var stutt nestispása fyrir lokasprett að Hlíðarvatni en þar þurfti að vaða og gekk hópurinn síðasta kílómetrann á tám, tevum eða blautum skóm. Þegar komið var á leiðarenda leitaði hópurinn skjóls frá rigningunni inn í tjaldi sem frábærir sjálfboðaliðar höfðu reist. Restin af mótsstjórninni mætti svo á svæðið með fjöldann allan af búnaði svo hægt var að reisa almennilega tjaldbúð og matartjald. Eftir kvöldmat höfðu skátarnir það kósí inn í matartjaldi, spiluðu borðspil og spjölluðu. 

Tjaldbúðin var lengi á fætur næsta dag enda margir ansi þreyttir eftir langa göngu en eftir góðan morgunmat var fánastöng fljót að rísa ásamt og hengirúmi úr trönum. Skátarnir tókust svo á í góðum hópeflisleikjum, spiluðu spil, föndruðu og höfðu það almennt frekar notalegt. Yfir daginn bættust skátar við hópinn og voru í heildina 32 skátar frá Árbúum, Fossbúum, Garðbúum, Heiðabúum, Hraunbúum, Klakki, Kópum, Landnemum, Svönum, Vogabúum og Ægisbúum ásamt frábæru liði sjálfboðaliða. Vindur var yfir svæðinu og smá þoka svo skátarnir treystu sér ekki út á bát á vatninu, þessi þoka reyndist svo vera gosmengun og eftir að hafa hringt og ráðstafað okkur við gáfaðra fólk var tekin ákvörðun um að gista innandyra.

Þátttakendur eiga stórt hrós skilið fyrir hvernig þau tóku þessum fréttum. Með góðri samvinnu var sett heimsmet í frágangi á tjaldbúð, smalað í bíla og lagt af stað í Búðardal. Við erum ótrúlega þakklát Skátafélaginu Stíganda og Búðardal sem leyfði okkur að gista í grunnskólanum og nýta aðstöðuna þar.

Laugardaginn 19. júlí, vaknaði hópurinn í Auðarskóla og eftir morgunmat, morgunleikfimi og fánaathöfn dreif hópurinn sig í sund í Laugum í Sælingsdal. Mjög gott var að geta skolað af sér ferðarykið, slappa af í pottinum og leika sér í lauginni. Laugin var full þegar hópurinn mætti á svæðið en varð ansi tóm þegar hann fór af einhverjum ástæðum. Eftir sund heimsótti hópurinn Erpsstaði, gæddi sér á dýrindis ís og heilsaði upp á dýrin þar. Einnig var klifrað upp ganginn í skólanum á rúllustólum og spilað fleiri borðspil. Um kvöldið tók svo við söguleg kvöldvaka með frábærum kvöldvökustjórum, fallegum söng og sprenghlægilegum skemmtiatriðum sem stóð yfir í þrjá klukkutíma. Lokadagur ferðarinnar einkenndist að frágangi og þrifum. Eftir góða kveðjustund og merkjagjöf skiptist hópurinn í bíla og kom sér heim.

Við í mótsstjórn erum alsæl með þetta mót þó svo að það hafi ekki farið alveg eins og upphaflega var planað. Við viljum þakka öllum sjálfboðaliðum sem komu að þessu móti þar sem það hefði ekki getað orðið að veruleika án þeirra. Einnig viljum við þakka öllum frábæru þátttakendunum sem gerðu þetta mót svona skemmtilegt og tóku vel í allar breytingar og verkefni sem við hentum í þau. 

Skátakveðja,

Mótsstjórn Náttúrulegu 2025, Landsmóts Rekka-og Róverskáta.

 

Privacy Preference Center