Ungmennaráð BÍS hélt viðburðinn Tré og tjútt í og við húsnæði Land og skógar í Mógilsá, Esjuhlíðum helgina 5.-7. september síðastliðinn í samstarfi við Skógrætarfélag Reykjavíkur og loftslagssjóð Reykjavíkur. Þátttakendur voru 36 á aldrinum 13 – 18 ára bæði skátar frá fjölmörgum skátafélögum og önnur þar sem viðburðurinn var opinn öllum, vonandi vakti þetta áhuga einhverra um skátastarf.

Skátarnir komu sér fyrir og könnuðu svæðið á föstudeginum, í kvöldmat voru ljúffengar kjúklingavefjur sem þátttakendur elduðu sjálf. Öll þurftu að vakna snemma á laugardeginum, borða morgunmat og útbúa nesti því ferðinni var heitið upp á Esju. Skógræktarfélag Reykjavíkur kenndi þátttakendum réttu handtökin ásamt því að veita þeim fræðslu um þær mismunandi trjátegundir sem þau voru að gróðursetja og hvar best væri að gróðursetja þær svo þær séu vænlegastar til langlífs svona hátt uppi í Esjunni. Þær trjátegundir sem voru gróðursettu voru 175 Gráelri, 140 Stafafurur, 105 Kjarrelri og 40 Víði eða um 460 plöntur í heildina sem þátttakendur gróðursettu á mettíma.

Eftir hádegismat gátu þau sem vildu tekið gönguna upp að Steini sem var um helmingurinn af hópnum en rest fór aftur niður í tjaldbúðina. Í síðdegishressingu voru kleinur og kanilsnúðar og svo var haldið af stað í stöðva dagskrá. Í stöðvunum var meðal annars uppkvistun við stíg í skóginum þar sem farið var yfir hvernig eigi að snyrta trén til þess að hleypa meiri birtu inn í skóginn og svo voru afgangs viðardrumbar endurnýttir og fræðsluefni í kringum það.

Högni reiddi fram dýrindis hamborgara fyrir þátttakendur og svo var haldið skógarball og þar var tjúttað og dansað. Kvöldvaka var haldin við varðeldalautina sem skátarnir gerðu fyrr um daginn og sum skelltu sér í saunu. Þetta var svo sannarlega eftirminnilegt kvöld. Á sunnudeginum var tiltekt og allt rusl týnt upp. Viðburðinum var slitið með pylsum á grilli og merkja afhendingu.

Markmið viðburðarins var að gróðursetja tré og veita athygli á loftslagsmálum, efla náttúrutengsl ungmenna, kynna skátastarf, og læra um allskonar skemmtilegt sem hægt er að nýta afurðir trjáa í. Einnig var áhersla lögð á að sýna þeim frábært útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Þátttökugjald á viðburðinn var ekkert þar sem verkefnið hlaut styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund) sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.

Ungmennaráð BÍS þakkar öllum þeim sem komu fyrir frábæra helgi og vonast er til að geta haldið fleiri viðburði í þessum dúr.

 

 

Privacy Preference Center