Vonandi verðum við hér aftur eftir 50 ár með enn stærra mót

Mynd: Ljósmyndasafn Akraness

Fyrir 50 árum síðan, árið 1974, var Landsmót skáta í fyrsta skipti haldið á Úlfljótsvatni dagana 14. – 21. júlí, en áður höfðu þau verið haldin víðsvegar um landið. Mótsstjóri var Bergur Jónsson, verkfræðingur. Þema mótsins var „Landnámið“ og var öll dagskrá byggð á því þema. Hvert skátafélag valdi sér landnámsmann og voru tjaldbúðirnar skírðar eftir fornum höfuðbólum í heimahéraði hvers félags. Um 1700 íslenskir skátar ásamt 200 erlendum skátum tóku þátt í mótinu en einnig voru um 100 skátar frá Danmörku og Frakklandi sem komu í tvo daga.

Mynd: Ljósmyndasafn Akraness

Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg. Sem dæmi um dagskrá má nefna samfélagsverkefni þar sem skátarnir fegruðu nærumhverfi sitt, einnig var markaðstorg þar sem hægt var að skiptast á merkjum, klútum, bókum og fleiru. Sett var upp tívolí með skemmtilegri afþreyingu en þar var hægt að prófa bogfimi og stultur. Heimsóknardagur var svo þann 20. júlí en þá var öllum sem vildu boðið í heimsókn á mótið.

Mynd: Morgunblaðið 11. júlí 1974

Gamla kirkjuklukkan úr Landakotskirkju var flutt á Úlfljótsvatn fyrir mótið og komið fyrir á stórri járngrind og er hún hér enn í dag á glænýrri grind.

Það er gleðilegt að halda Landsmót hér á Úlfljótsvatni aftur 50 árum seinna með svipuðum fjölda skáta. Vonandi verðum við hér aftur eftir 50 ár með enn stærra mót.

Mynd: Landsmót 2024
Guðni Gíslason á kvöldvöku Hraunbúa á Landsmóti 2024 með sama gítar og á Landsmóti 1974