Vel heppnað Merkjamót

Þann 12. október hélt Ungmennaráð Merkjamót í Skátamiðstöðinni. Um 30 skátar á aldrinum 13-19 ára sóttu viðburðinn og fræddust um merki og merkjaskipti. Dagskrá var fjölbreytt og kom margt skemmtilegt fólk með dagskrárliði. Starfsráð kom og hélt geggjaða kynningu um færnimerkin og svo fengu skátarnir að búa til sín eigin færnimerki. Aldrei að vita, kannski koma færnimerki í Skátabúðina hönnuð af þátttakendum Merkjamóts.
Katrín fræðslustýra BÍS ræddi um samskipti og fór með skátana í leik sem heppnaðist mjög vel. Á milli dagskrárliða var farið í nafnaleiki og geggjað boðhlaup með veglegum vinningum og heppnaðist það einstaklega vel. Haldin var smiðja um red flags í samskiptum, hverju þarf að taka eftir, hvenær er verið að svindla á þér og svo framvegis. Tveir rekkaskátar sögðu frá þeirra reynslu í merkjaskiptum. Þrír sjálfboðaliðar Úlfljótsvatns komu og kynntu skátastarf í sínu heimalandi og merkin þeirra.

Seinni part dags var farið í tvær stórar keppnir, önnur þeirra var Skátatankurinn sem er keppni byggð á þáttunum “Shark Tank” þar sem þátttakendur þurf að selja dómnefnd einhverja vöru. Að þessu sinni áttu skátar að selja dómnefnd merki. Í dómnefnd sátu Harpa Ósk skátahöfðingi, Úlfur Kvaran og Einar Tryggvi. Það var ríkti mikið keppnisskap enda voru vegleg verðlaun í boði. Seinni keppnin var skátarúlleta, þá skiptu skátarnir merkjum og var markmiðið að safna sem flestum. Veitt voru verðlaun fyrir flest merki og mesta úrvalið.

Einnig var borðuð pizza og Skátabúðin var opin og seldi meðal annars bland í poka af merkjum svo öll ættu að geta skipt við erlenda skáta á næstu viðburðum.

Ungmennaráð vill þakka skipulagsteyminu og öllum sem komu og tóku þátt fyrir frábært Merkjamót. En hugmyndin af þessu móti kviknaði hjá Styrmi í Garðbúum og Einari og Daníel í Árbúum. Þeir í samvinnu við Ungmennaráð skipulögðu svo viðburðinn. Ef þú ert með hugmynd sem þig langar að gera að veruleika, ekki hika við að hafa samband í tölvupósti.