Uppgötvun á foringjanámskeiði
Foringjanámskeið var haldið helgina 6.-8. september í Lækjarbotnum.
Þangað voru mættir foringjar sem eru að hefja starfsárið í sínum skátafélögum en það var sérstaklega gaman að þátttakendahópurinn var mjög fjölbreyttur; bæði foringjar sem eru að taka sín fyrstu skref í foringjastörfum en líka reynslumeiri foringjar, og hópurinn samanstóð af foringjum frá mörgum aldursbilum.
Þema helgarinnar var “Uppgötvum!”, þar sem markmiðið var að uppgötva töfra foringjahlutverksins, og skátastarfs í heild. Þátttakendur störfuðu í þremur flokkum sem báru nöfnin Nóbel, Tinnarnir og Einstein. Á námskeiðinu lærðu þátttakendur meðal annars um hlutverk skátaforingja, markmiðaflokkana og hvernig þeir geta stutt við dagskrárval, PGM og ÆSKA, færnimerkin, stikumerkin og könnuðamerkin.
Þá lærðu þátttakendurnir að gera starfsáætlun fyrir veturinn og fengu að heyra innlegg um frávik í hegðun og öryggi í skátastarfi.
Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka undir stjörnubjörtum himni þar sem flokkarnir sýndu skemmtiatriði og bæði klassísk og minna þekkt skátalög voru sungin.
Foringjanámskeið er ekki síst kjörinn vettvangur til að spjalla við aðra foringja, deila ráðum, hugmyndum og mismunandi sjónarhornum og nú halda þátttakendurnir út í starfsárið með gott veganesti.
Leiðbeinendasveitin óskar öllum sveitar- og aðstoðarsveitarforingjum góðs gengis og góðrar skemmtunar á starfsárinu sem er framundan!