Sumardagurinn fyrsti 2022

Sumardagurinn fyrsti 2022 er haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 21. apríl á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið hafa skátar skipulagt og standa að glæsilegum og stórskemmtilegum hátíðarhöldum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Í Reykjavík

Skátafélagið Árbúar í Árbæ

Staðsetning: Árbæjarsafn og við Skátaheimilið Hraunbæ 123
Tímasetning: 12:00-15:00

Skátafélagið Árbúar leiðir skrúðgöngu ásamt lúðrasveit Verkalýðsins, gengið verður frá Árbæjarsafni að Árbúaheimilinu en þar tekur við póstaleikur þar sem verða verðlaun í boði, útieldun, hoppukastalar, klifurveggur og fleira. Veitingasala verður á staðnum sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélögin Garðbúar í Fossvogi, Landnemar í Hlíðunum og Skjöldungar í Laugardal

Staðsetning: Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Tímasetning: 14:00-17:00

Skátafélögin þrjú ætla að sameina krafta sína og standa fyrir miklu sumarfjöri í fjölskyldu og húsdýragarðinum. Dagskráin verður í gangi á milli 14:00 og 17:00 og verður 50% afsláttur á aðgangsverði í garðinn á meðan. Auk alls þess sem er að skoða og gera í garðinum öllu jafna verður klifurturn, hoppukastali, hindrunarbraut, poppað yfir opnum eldi og skátaleikir. Á staðnum verður sölutjald þar sem ýmis góðgæti verður til sölu sem fjáröflun fyrir unga skáta sem stefna á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélagið Vogarbúar í Grafarvogi

Staðsetning: Skátaheimili Vogabúa, Logafold 106
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Vogabúar munu standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið sitt. Í boði verða leiktæki, hoppukastalar og ýmis skemmtun með skátaívafi. En síðan mæta líka töframaðurinn Daníel Sirkus og trúbadorinn Jón Sigurðsson og halda uppi stuðinu. Á staðnum verða seldar vöfflur, kakó, kaffi og svalar sem fjáröflun fyrir skátafélögin. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbænum

Staðsetning: Skátaheimili Ægisbúa, Neshaga 3
Tímasetning: 12:00-15:00

Skátafélagið Ægisbúar blæs til carnivals á sumardeginum fyrsta við skátaheimili sitt. Á staðnum verða hoppukastalar auk annarar skemmtunar. Á staðnum verða sölutjöld með góðgæti og ýmis matarkyns sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

 

Í Hafnarfirði

Skátafélagið Hraunbúar

Staðsetning: Víðistaðakirkju og Thorsplani
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Hraunbúar tekur þátt í hátíðarhöldunum tengt Björtum dögum og sumardeginum fyrsta í Hafnarfirði. Dagskrá stendur til boða allan daginn víða um bæinn en nánari upplýsingar um heildardagskrána má finna á upplýsingasíðu Hafnarfjarðarbæjar. Skátafélagið mun koma að messu í Víðistaðakirkju en að henni lokinni mun skátafélagið Hraunbúar og Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar standa fyrir skrúðgöngu frá kirkjunni að Thorsplani. Að skrúðgöngu lokinni verður ævintýraleg fjölskyldudagskrá á Thorsplani í umsjón skátafélagsins Hraunbúa, í boði verða hoppukastalar og skemmtidagskrá á sviði. Frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Í Garðabæ

Skátafélagið Vífill

Staðsetning: Vídalínskirkju og Miðgarði
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Vífill mun að vana halda uppi hátíðarhöldunum vegna sumardagsins fyrsta í Garðabæ. Skátafélagið mun koma að messu í Vídalínskirkju en að henni lokinni verður skrúðganga frá kirkjunni að íþróttamiðstöðinni Miðgarði þar sem skemmtidagskrá verður í boði fyrir gesti og gangandi. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Garðabæjar.

Í Mosfellsbæ

Skátafélagið Mosverjar

Staðsetning: Miðbæjartorgi og Varmá
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Mosverjar mun leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá þar sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngunni með sumartónum. Að skrúðgöngu lokinni hefst dagskrá á Varmá með hoppuköstulum, leiktækjum, vöfflum, pylsugrilli, svampakasti og almennu skátafjöri. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Mosfellsbæjar.

Í Reykjanesbæ

Skátafélagið Heiðabúar

Staðsetning: Keflavíkurkirkju og skátaheimili Heiðabúa, Hringbraut 101
Tímasetning: 12:30-17:30

Skátafélagið Heiðabúar mun leiða skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu en að henni lokinni tekur við fjölskyldudagskrá og ratleikur frá Skátaheimilinu. Á staðnum verður hægt að kaupa aðgang að kaffiveitingum sem er fjáröflun fyrir skáta sem halda á alheimsmót í Suður-Kóreu 2023.

Á Selfossi

Skátafélagið Fossbúar

Staðsetning: Skátaheimilinu Glaðheimum, Tryggvagötu 36
Tímasetning: 14:00-16:00

Nóg verður um að vera á Selfossi þar sem skátafélagið Fossbúar taka þátt í hátíðinni Vor í Árborg en skátafélagið verður með fjölskylduskemmtun þar sem boðið verður upp á andlitsmálningu, hoppukastala og svampakast.  Á staðnum verður líka veitingasala sem er fjáröflun fyrir félagið. Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Árborgar.

Á Akureyri

Skátafélagið Klakkur

Staðsetning: Skátaheimili Klakks, Þórunnarstræti, Akureyrarkirkju og tjaldsvæðinu á Hömrum
Tímasetning: 10:40-15:00

Skátafélagið Klakkur mun vera með skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Akureyrarkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu en að henni lokinni er öllum boðið að koma í fjölskyldudagskrá og súpu að tjaldsvæðinu á Hömrum. Frekari upplýsingar á viðburðarsíðu á facebook.

Á Akranesi

Skátafélag Akraness

Staðsetning: Tónlistarskólanum, Akraneskirkju og Vinaminni
Tímasetning: 10:30-14:30

Skátafélagið Akraness sér um skrúðgöngu frá tónlistarskólanum að Akraneskirkju þar sem skátafélagið kemur að messu, að henni lokinni verður boðið upp á grillaðar pylsur og hoppukastala við Vinaminni.