Skátar setja sér jafnréttisstefnu

Á Skátaþingi sem haldið á Bifröst um liðna helgi samþykktu skátar sér jafnréttisstefnu. Þórhildur Elínardóttir Magnúsardóttir sem leitt hefur vinnuna með góðum hópi skáta kynnti stefnuna, sem var samþykkt samhljóða. 

Með stefnunni er verið að skýra hlutverk og leiðir til að tryggja raunverulega inngildingu og aðgengi allra hópa að skátastarfi óháð kynþætti, þjóðerni, kynvitund, kynhneigð, kyntjáningu, trú, stjórnmálaskoðun, aldri, stétt eða stöðu að öðru leyti.  

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að tryggja að allir skátar njóti jafnréttis í skátastarfi og er því settar þær skyldur á herðar að koma í veg fyrir mismunun, ójafnrétti og óréttláta meðferð.  

     

Markmið stefnunnar eru:

  1. Að öll sem sinni sjálfboðaliða- eða forystustörfum fyrir skátana búi yfir greinargóðri þekkingu og vitund um mannréttindi, jafnrétti, inngildingu og fjölbreytileika samfélagsins.
     
  2. Að ráðstafanir verði teknar til að kynna skátastarf fyrir, og taka sérstaklega á móti í skátastarfi, þeim hópum samfélagsins sem eiga erfiðara með að stunda tómstundir eða æskulýðsstarf, t.a.m. vegna fjárhags, tungumáls, fötlunar, þjóðernis, kynferðis eða stöðu að öðru leyti.
     
  3. Að hvar sem það er hægt skal skátastarf aðlagað að ólíkum þörfum þeirra sem stunda það, svo lengi sem það stríðir ekki gegn Grunngildum skátahreyfingarinnar, markmiðum hennar eða skátaaðferðinni.
     
  4. Að öll lög, stefnur og reglugerðir BÍS endurspegli þessa skuldbindingu samtakanna að stuðla að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni.
     
  5. Að miðla þessari stefnu út á við til félaga BÍS og víðar.
     
  6. Að endurmeta og endurbæta þessa stefnu eftir því sem við á svo að BÍS geti haldið áfram að þróast í átt að frekari inngildingu og fjölbreytileika í skátahreyfingunni. 

Skoða stefnuna í heild.