Sækjum fram – skátar í hverri höfn

Skátaþing var haldið helgina 4.-6. apríl í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Yfirskrift þingsins var “sækjum fram – skátar í hverri höfn” og vísar það til hringferðar sem verið er að leggja í með það að markmiði að fjölga skátafélögum og veita fleiri börnum og ungmennum tækifæri á því að stunda skátastarf. Skátaþing var einkar vel sótt og voru þátttakendur um 150 talsins. Kjörbréf voru 58 og voru 50% atkvæða í höndum ungmenna á aldrinum 13-25 ára.

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, setti þingið og ávarpaði þingheim. Í ávarpinu kom hún inná hvað skátastarf hefur þróast og dafnað undanfarin tæp 120 ár og á enn jafn vel við í dag og þá. Enn er skátastarfið að skila sínu til samfélagsins, stuðla að frið, efla ungt fólk til ábyrgðar og halda tengslum við upprunan og náttúruna. Þá talaði hún einnig um hvernig síðustu ár hafa farið í að styrkja innviði skátastarfs, hvatakerfið, uppbyggingu viðburða og fleira og þess vegna er skátahreyfingin tilbúin að sækja fram og efla skátastarf í landinu.

Heiðursmerki voru veitt fyrir ýmis vel unnin störf og voru það eftirfarandi sem hlutu heiðursmerki:

Þjónustumerki BÍS úr gulli:
Alex Már Gunnarsson, Vífill, fararstjórn Roverway
Halldóra Hinriksdóttir, Landnemar, fararstjórn Roverway
Valdís Huld Jónsdóttir, Vífill, fararstjórn Roverway
Þóra Lóa Pálsdóttir, Hraunbúar, fararstjórn Roverway

Þórshamarinn úr bronsi:
Bjarni Freyr Þórðarson, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Haukur Friðriksson, Ægisbúar, fráfarandi félagsforingi Ægisbúa

Skátakveðjan úr bronsi:
Claus Hermann, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Þórey Valgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Skátakveðjan úr gulli:
Guðni Gíslason, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Bronskrossinn:
Anna Kristjana Öfjörð Helgadóttir, Klakkur.
Fyrir rétt viðbrögð við slysi á dróttskátamóti í Viðey þar sem skáti ökklabrotnaði. Anna tók stjórn á aðstæðum, hlúði að skátanum og veitti aðstoð við andlega skyndihjálp, lét útbúa börur og stýrði því að skátanum var komið ferjuna til að fá aðstoð við hæfi á Landspítalanum.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, 8 ára, Heiðabúar.
Fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar það rofnaði kransæð hjá móður hennar og þær tvær einar heima. Hún lét móður sína hringja í 112 og beið róleg með henni þar til sjúkraflutningamenn komu og fylgdi henni alla leið á hjartagáttina sem stuðningur. 

Silfurkrossinn:
Jón Andri Helgason, Árbúar.
Fyrir hetjulega björgun á Crean þar sem írskir skátar misstu fótana í straumharðri á sem þeir reyndu að þvera. Jón Andri Stakk sér á eftir þeim og kom þeim að lokum í land, blautum en afar þakklátum fyrir lífgjöfina.

 

Almenn þingstörf fóru fram fyrri hluta laugardags og var þar kosið um lagabreytingatillögur og rætt um ýmis mál. Að þingstörfum loknum voru haldnar vinnusmiðjur  þar sem starfsráð kynnti færnimerki, R.s. Snúðar kynntu færnifant sem er nýtt færnimerkjaspil og alþjóðaráð fræddi fólk um hvað þau geta gert á eigin vegum í alþjóðastarfi. Einnig voru Úlfljótsvatn, Hraunbyrgi og Hamrar með umræðusmiðju um skátamiðstöðvar á Íslandi og tækifærin sem þar liggja. Vinnuhópur Hringferðarinnar var með tvær smiðjur, annars vegar um fjölgun sjálfboðaliða og hinsvegar um fjölgun skátafélaga. Þá var einnig smiðja um skátasambönd.

Hátíðarkvöldverður var haldin á laugardagskvöldinu þar sem Jakob Burgel veislustýrði með miklum glæsibrag og Elfa Dögg reytti af sér brandarana.

Sunnudagurinn var tileinkaður stefnumótun þar sem um 80 skátar mættu og fóru yfir það sem vel var gert í stefnunni sem klárast í ár en jafnframt var horft fram á við og hvaða markmið skátahreyfingin vill sjá í stefnu 2026 – 2030. Stærstur hluti þeirra sem komu að þessari undirbúningsvinnu nýrrar stefnu voru ungmenni og erum við stolt af því að rödd þeirra muni sjást og heyrast í næstu stefnu. Smiðjan um stefnuna var þó einungis upphafið að vinnu við gerð nýrrar stefnu og kemur hún til með að lýta dagsins ljós í upphafi árs 2026.