Fyrrverandi skátahöfðingi sæmd Fálkaorðu
Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi var í gær þann 17. júní 2024, sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.
Margrét Tómasdóttir gekk til liðs við skátahreyfinguna á barnsaldri, fyrst í Reykjavík síðan í Kópavogi og Garðabæ.
Hún gegndi öllum helstu foringjastörfum í hreyfingunni á yngri árum og að námi loknu var hún í forystu skátahreyfingarinnar m.a. formaður starfsráðs Bandalags íslenskra skáta, en ráðið fjallar um viðfangsefni skátastarfsins á hverjum tíma. Margrét sat í stjórn Skátafélagsins Vífils í Garðabæ á árunum 1991-1996 og var Margrét einstaklega röggsöm og fylgin sér og á félagið henni margt að þakka! Árið 2004 var hún fyrst kvenna kjörin skátahöfðingi Íslands eftir að hafa gegnt embætti aðstoðarskátahöfðingja um árabil. Margrét var skátahöfðingi alls í sex ár eða til ársins 2010.
Við óskum Margréti innilega til hamingju um leið og við þökkum henni fyrir ómetanlegt starf í gegnum árin.