Eintóm gleði á síðasta degi Landsmóts

Í gær var síðasti dagskrárdagur Landsmóts haldinn hátíðlegur þar sem öll voru velkomin í heimsókn til að kynnast ólíkum menningarheimum og skoða hvað skátafélögin höfðu upp á að bjóða. Skátafélög kynntu heimabæi og lönd sín og buðu meðal annars upp á ýmsar veitingar og skemmtilega leiki á borð við flöskuendurvinnslu þar sem hægt var að fá skátamerki að launum, taka ferð á villtum bola og einnig voru ýmsar gerðir af gestabókum um allt svæðið.

Um hádegisbil flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið og sýndi björgun úr vatni og hífði nokkra skáta úr Úlfljótsvatni og vakti það mikla lukku meðal áhorfenda.

Mynd: Helgi Jónsson

Meðal gesta mótsins voru Guðni Th. Thorlacius, forseti Íslands og verndari skátahreyfingarinnar og Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, en þau gengu um svæðið með mótsstjórn og stjórn BÍS og gæddu sér á veitingum, prófuðu leiki og spjölluðu við skáta allsstaðar að úr heiminum. Mörgum erlendum skátum fannst magnað að sjá forsetan falla svo vel í hópinn vildu ólm fá mynd með honum.

 

BMX bros voru einnig á svæðinu og sýndu listir sínar við góðar undirtektir. Veðrið var eins og sönnu íslensku veðri sæmir, rigning, glampandi sól og hiti, þrumur og eldingar, úrhellis rigning og svo loks logn og skýjað. Ótrúlegt að upplifa allar þessar veðurbreytingar á einum og sama deginum.

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldvaka en þar stigu á svið gamalreyndur kvöldvökuhópur ásamt yngri og nýrri kvöldvökuhóp og stjórnuðu þau stórglæsilegri kvöldvöku en einnig voru skemmtiatriði sem vöktu mikla gleði. Inspector Spacetime kom svo brekkunni í partýstuð og myndaðist ein lengsta kóngaröð sem sést hefur á Landsmóti. Stuðlabandið hélt svo stuðinu uppi lang frameftir kvöldi og ómuðu tónar þeirra og gleði skátanna um allt tjaldsvæðið.