Skátar skemmtu sér í ýmsum veðrum

Um Hvítasunnuhelgina héldu Hraunbúar sitt árlega Vormót í 82. skipti. Vormót er mót fyrir fálkaskáta og eldri og fjölskyldur eru velkomnar í fjölskyldubúðir. 

Eftirvæntingin var mikil og má segja að mótið hafi staðið undir væntingum þar sem skátar voru við leik og störf.

Veðrið var allskonar, all frá sól og blíðu yfir í rok, örlitla rigningu, pínulítið haglél og svo kórónað með tvöföldum regnboga, ekkert af þessu setti mótið út af laginu enda skátarnir við öllu búnir bæði með sólarvörn og pollagalla meðferðis. 

  

Dagskrá mótsins var krefjandi og að hluta til miðuð við Rekkaskáta. Í boði voru göngur allt að 20km þar sem hægt var að vinna sér inn stiku- og/eða hæðarmerki, metnaðarfull útieldun þar sem hann Klási okkar kenndi skátunum að elda paellu yfir eldi og djúpsteikja ástarpunga, víkingarnir voru á sínum stað, kanóar og kayakar á Hvaleyrarvatni, ratleikir, hjólaferðir í sund og svo aðstoðaði hún Sigríður Júíla þátttakendur við að skreyta mótsklútana með útsaum, stimplun og fleiru.

Skátapartý, kvöldvaka og næturleikur eru fastir punktar á Vormóti og voru á sínum stað í dagskránni. Rekkaskátar fengu auk þess kvölddagskrá enda ekki annað hægt þegar um fjórðungur þátttakenda eru Rekkaskátar.

 

Það er fátt skemmtilegra en að vera á góðu skátamóti með góðum vinum og við vorum svo lánsöm að með okkur voru skátar frá Landnemum, Garðbúum, Fossbúum, Ægisbúum, Vífli, Mosverjum og Skjöldungum. Þau settu sinn svip á mótið með jákvæðni og gleði.

Á næsta ári verður Vormót 6.-9. júní svo ætla má að það verði ögn hlýrra þó það sé engin trygging eins og veðurglöggir skátar vita. Næsta ár markar einnig 100 ára samfellt skátastarf Hraunbúa í Hafnarfirði svo við höfum fulla ástæðu til að ætla að gleðin verði alls ráðandi á Vormóti 2025. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Texti og myndir: Harpa Hrönn Grétarsdóttir, Hraunbúi