Skátaandinn svífur yfir svæðið
Fjórði dagur mótsins byrjaði vel, sólin skín og öll komin út á stuttermabolnum, buslandi í vatninu og í leit að nýjum ævintýrum. Það er magnað að sjá hvað skátaandinn svífur yfir svæðið, öll hafa áhuga á að kynnast nýjum skátavinum allsstaðar að úr heiminum. Mörg eru að fræðast um skátastarf í öðrum löndum og kynnast annarri menningu. Að sögn þátttakenda eru aðal töfrarnir við Landsmót að kynnast öðrum skátum og skiptast á sögum og merkjum.
Einnig fagnaði Skátasafnið 10 ára afmæli, 15. júlí. Af því tilefni var haldin afmælishátíð í og við nýuppgert húsnæði safnsins. Haldnar voru ræður og lög sungin. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi og Davíð Þrastarson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, afhentu Skátasafninu styrk upp á þrjár og hálfa milljón, frá Bandalagi íslenskra skáta, til uppbyggingar safnsins og uppsetningu nýrrar sýningar. Atli B. Bachmann tók við styrknum fyrir hönd safnsins.
Kvöldið einkenndist svo að skemmtun og gleði á kvöldvökum um allt svæðið. Dagurinn hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur og ævintýralegur í frábæru veðri og vonandi býður dagurinn í dag upp á enn fleiri ævintýri og nýja vini.