Lausnamiðun og hjálpsemi á fyrsta degi mótsins
Það rigndi vel á okkur á fyrsta degi Landsmóts. Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og komu upp tjaldbúðum, elduðu mat og skemmtu sér vel. Þegar líða fór á kvöldið bætti þó heldur í rigninguna, stórir pollar mynduðust á tjaldflötunum og sum tjöld fóru á flot. Þar sem skátar eru einkar lausnamiðaðir og hjálpsamir voru því öll stærri tjöld nýtt til þurrkunar á minni tjöldum og öðrum búnaði. Brugðið var á það ráð að moka litla skurði sem stýrðu vatninu frá tjaldflötunum.
Annar dagur mótsins hófst svo í dag með fjölbreyttri dagskrá t.d. var opin dagskrá þar sem hægt var að fara í klifurturninn, taka þátt í fótboltamóti, heimsækja Gilwell skálann, Skátasafnið og margt margt fleira.
Eftir hádegismat fóru skátarnir í torgadagskrá sem verður í boði fjóra daga á mótinu og allir skátar fara á öll torgin. Torgin eru fjögur. Á göngutorg er hægt að velja um ýmsar gönguleiðir í kringum Úlfljótsvatn og nágrenni. Á samfélagstorgi er hægt að vinna verkefni sem miða að því að fegra og betrumbæta umhverfi Úlfljótvatns. Á sköpunartorgi er ýmis efniviður og þar fær ímyndunaraflið að njóta sín. Og á þrauta-og metatorgi var hægt að fara í vatnasafarí, byggja fleka, keppa í sápubolta og margt fleira.
Um kvöldið var svo skátaáskorunin en það eru 100 þrautir um allt svæðið sem hvert skátafélag þurfti að leysa í sameiningu. Sem dæmi um þrautir og verkefni sem þufti að leysa var að raða sér í afmælisröð án þess að tala saman, fylla vatnsbrúsa með rigningarvatni og bera kennsl á 10 fána á svæðinu. Skátaáskorunin einkenndist af gleði, fjöri, rigningu og samvinnu.