Landsmót hefst á morgun!

Landsmót skáta verður haldið 12. – 19. júlí á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.  Skátar fagna því að geta aftur komið saman eftir 8 ára hlé, en fella þurfti síðasta mót niður vegna Covid 19.  Á landsmótum skáta er samheldni, gleði og skátaandinn í fyrirrúmi.

Þema landsmóts í ár er „Ólíkir heimar“ sem vísar til þess að á landsmóti eru ekki bara íslenskir skátar heldur koma skátar alls staðar að úr heiminum, enda er skátahreyfing stærsta æskulýðs- og friðarhreyfing í heimi.  Skátarnir koma frá ólíkum löndum, hafa ólíkan menningarbakgrunn og tala ólík tungumál en eiga það öll sameiginlegt að vera skátar.

Landsmót skáta stendur yfir í viku, og er gist í tjöldum.  Tjaldbúðirnar sem rísa munu rúma yfir 2000 skáta og fjölskyldur þeirra, og á örfáum dögum rís nýtt bæjarfélag skáta á Úlfljótsvatni.  Dagskráin er  fjölbreytt og skemmtileg þar sem öll ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, reynt við nýjar áskoranir og á sama tíma eignast nýja vini.  Dæmi um dagskrá eru hike-gönguferðir, sköpunarsmiðjur, bogfimi, klifur og stór þrautasvæði. Stór hluti skátastarfs byggir á þjónustu við samfélagið og munu því allir skátar mótsins taka þátt í því að bæta heiminn í einn dag, og vinna verkefni sem byggja upp miðstöðina á Úlfljótsvatni.

Sérstakar fjölskyldubúðir verða starfræktar á mótinu þar sem fjölskyldur þátttakenda, eldri skátar og fjölskyldur þeirra og þau sem eru áhugasöm um að kynnast skátastarfi stendur til boði að tjalda saman og taka þátt í mótinu.  Dagskráin er sérstaklega miðuð að yngri kynslóðinni og fá þau meðal annars að fara í bátasmiðju, útieldun, á kvöldvöku og margt fleira.

Á heimsóknardegi þann 18. júlí geta þau sem vilja komið í heimsókn á mótið og tekið þátt í dagskrá, rölt um svæðið og kynnst skátafélögunum sem mörg hver verða með kynningar, leiki og fleira. Einnig er hægt að kíkja á kaffihúsið í Strýtunni og fá sér kaffi og vöfflur eða versla í Skátabúðinni og enda svo daginn á hátíðarkvöldvöku.