Hringborð drekaskátaforingja
Drekaskátaforingjar hittust fimmtudaginn 13. október á hringborði drekaskátaforingja. Tilgangur hringborðsins var að skapa vettvang fyrir drekaskátaforingja að hittast og spegla sig við aðra drekaskátaforingja með því að deila reynslum og ræða ákveðin málefni.
Skilaboðakassi fyrir traustan félaga
Skátaforingjar frá Skjöldungum, Sunna Dís og Gunnhildur, deildu reynslu sinni við að nota skilaboðakassa í drekaskátasveitinni sinni til þess að bjóða drekunum upp á möguleikann á að senda þeim skilaboð nafnlaust. Þau höfðu umræðu um kassann með sveitinni þar sem hann var staðsettur frammi á gangi og hvernig skátarnir gátu nýtt sér kassann til að deila með foringjunum bæði hvernig þeim líður á fundunum og að koma með hugmyndir af dagskrá fyrir sveitina. Foringjarnir sögðu reynsluna mjög góða og að mörg gagnleg skilaboð höfðu komið yfir önnina. Þær nýttu kassan til þess að vinna að færnimerkinu traustur félagi.
Hvað geta drekar
Védís frá starfsráði og fyrrum drekaskátaforingi ræddi við foringjana um að drekaskátar geta oft á tíðum mun meira en við höldum. Hún sagði frá reynslu sinni sem drekaskátaforingi hjá Landnemum ásamt Júlíu og hvernig þæt settu sér það markmið að reyna að gera dagskrána eins spennandi og krefjandi og þær gátu. Þær hjálpuðu hvor annarri að muna eftir því að vefja ekki drekaskátana inn í bómulinn heldur að skapa frekar vettvang þar sem drekarnir fá tækifæri til að reyna almennilega á sig. Einnig minnti Védís okkur á að auðvelt er að breyta innifundum í útifundi, að stundum er venjan að gera ákveðin verkefni inni í skátaheimilinu sem auðvelt er að færa út og mögulega virka fundirnir enn betur og verða skemmtilegari úti í nærumhverfinu og náttúrunni.
Hvernig keyrir maður ólíka dagskrá
Egle fyrrum drekaskátaforingi í Garðbúum fór yfir hvernig hún leyfði drekaskátunum að velja sér ,,vinnuhópa/flokka“ eftir áhugasviði þar sem hver hópur var að einblína á ákveðin færnimerki en öll sveitin fór í gegnum dagskráhringinn á sama tíma sem endaði í að öll fengu þau færnimerkin sem unnið var að. Hún fór einnig yfir hvernig hún bjó til spennandi dagskráhringi upp úr hugmyndum skátanna, þar sem engin hugmynd er of stór heldur er hægt að finna leiðir til að vinna allar hugmyndir inn í dagskráhring eða tengja við færnimerki. Það mikilvægasta er að muna að gera dagskrána spennandi og hugsa út fyrir kassann. Hún deildi síðan með okkur sínum eftirminnilegustu fundum eða dagskráhringum eins og útibíó þar sem krakkarnir bjuggu til bíla úr pappakassa, pókemon fund þar sem krakkarnir bjuggu til nýja pókemona og alþjóðlegt þema þar sem krakkarnir völdu lönd og lærðu um menninguna hjá þeim og fóru í stopdans með lögum þeirra landa.
Góðar umræður í lokin
Heilt yfir var hringborðið góður vettvangur fyrir skátaforingjana að hittast og ræða saman um hvernig við gera drekaskátastarfið spennandi og krefjandi. Farið var yfir hvað stendur í starfsgrunni skátanna um drekaskáta og voru skátaforingjar sammála um að gott er að hafa viðmið um hvert þau eiga að stefna með starfinu. Í lokin voru góðar umræður um dagskrá drekaskáta og náðu foringjarnir að spyrja hvort annað um hugmyndir og deila skemmtilegum og eftirminnilegum fundum og dagskráhringjum.