Hefð að hjóla á skátamót
Tjaldflatirnar við Úlfljótsvatn eru nú að fyllast af skátum sem setja upp tjaldbúð og taka þátt í Skátasumrinu 2021. Mótið, sem var sett á miðvikudag, er eitt þriggja sambærilegra minni móta sem haldin verða á Úlfljótsvatni í sumar, í stað eins risavaxins Landsmóts skáta. Þetta var gert til að tryggja að hægt væri að bregðast við þeim samkomutakmörkunum sem kynnu að eiga við. Flestir skátarnir komu sér á áfangastað með hefðbundnum hætti — í rútum eða á einkabílum — en nokkrir vaskir skátar úr Skátafélaginu Vífli úr Garðabæ ákváðu að halda í gamla hefð og hjóla á mótið.
Héldu að þetta yrði ekkert mál
„Það er gömul hefð í skátafélaginu okkar að dróttskátar hjóli á Landsmót. Ég held að hún sé frá 2002, þegar mótið var á Akureyri,“ segir Birgir Óli Guðmannsson, einn af skátunum sem hjóluðu. Hjólaferðin tók 5 og hálfan tíma, en skátarnir hjóluðu 56 km, frá Garðabæ til Úlfljótsvatns um Nesjavelli. „Ég hélt þetta yrði ekkert mál,“ segir Hreiðar Örn Hlynsson, annar úr hópnum, „en ég hafði ekki rétt fyrir mér. Lokaspretturinn var ógeðslegur“. Á leiðinni eru þrjár 15% brekkur en strákarnir sjá ekki eftir þessu. „Það eru ekki allir sem geta sagst hafa hjólað 56 kílómetra!“ segir Birgir Óli.
Hlakka til að hitta gamla vini
Drengirnir úr Vífli eru spenntir fyrir mótinu, enda langt síðan skátar máttu koma saman í hundraða tali. „Eftir þessa hjólaferð — ef þetta verður ekki skemmtilegasti hlutur í heimi verð ég svekktur!“ segir Kári Kjartansson, einn úr hjólahópnum. Það er lítil hætta á að Kári verði fyrir vonbrigðum, enda er þétt dagskrá í boði fram á sunnudag. Hreiðar segist spenntastur fyrir því að hitta gamla vini úr fararhópnum á heimsmótið fyrir tveimur árum. „Svo er líka bara gott að vera mættur aftur, eftir svona langt hlé frá skátaviðburðum,“ bætir hann við.
Tækifæri felast í heimsfaraldri
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, ein af skipuleggjendum mótsins, segir að mótið fari vel af stað. „Það eru ákveðin forréttindi að fá að keyra mótið þrisvar, því við munum vafalausts læra mikið á leiðinni,“ segir Þórey Lovísa og bætir því við að svona mót hafi ekki verið haldin áður. „Í raun er heimsfaraldurinn að gefa okkur tækifæri til að prófa nýja hluti sem við höfum ekki gert áður,“ segir Þórey Lovísa.
Skátasumarið 2021 stendur yfir næstu þrjár vikur og eru tæplega 200 þátttakendur á svæðinu hverju sinni.