Fimmti dagur ævintýra á Landsmóti
Fimmti dagur Landsmóts var rólegur en fullur af ævintýrum. Loks fengum við týpískt íslenskt sumarveður, skýjað, hlýtt og smá gola. Þátttakendur fóru í klifurturninn, hoppukastalana, gönguferðir og ýmislegt fleira. Áfram var unnið að samfélagsverkefnum og voru undirgöngin meðal annars máluð í öllum regnbogans litum. Útieldunin hefur einnig slegið í gegn en í dag var til dæmis heill fiskur eldaður í dagblaði yfir opnum eldi. Hæfileikakeppni mótsins sló í gegn og ómuðu fagnaðarlætin um allt. Þar voru meðal annars söngatriði, dansatriði, tónlistaratriði og rapp.
Í fjölskyldubúðum hefur einnig verið mikil og fjölbreytt dagskrá. Í dag var dagvaka, eða kvöldvaka haldin að degi til svo allra yngstu þátttakendur gætu verið með og mættu skátar frá skátafélagi Sólheima í heimsókn. Bátasmiðjan í fjölskyldubúðum hefur einnig slegið í gegn og líka búningarnir sem hægt er að fá lánaða.
Um kvöldið var svo æsispennandi flokkakeppni þar sem skátaflokkar kepptust um að hljóta titilinn „Flokkur mótsins“ en til þess þurftu flokkarnir að takast á við ýmsar skátaþrautir. Einnig var Gilwell endurfundir (e. reunion) og þar var mikið spjallað, sungið og hlegið. Enn einn frábær ævintýradagur að líða undir lok!