COVID-19 og skátastarf
Kæru félagsforingjar, skátaforingjar, stjórnir og starfsfólk
Samkomubanni hefur verið lýst yfir og það tekur gildi á miðnbætti sunnudaginn 15. mars nk. Það á við um STÆRRI samkomur en hefðbundna skátafundi. Miðum við að ekki fleiri en 20 manns séu í hverju rými og miðum skátastarfið okkar við grunnskólana, þeim er EKKI lokað og á meðan svo er þá mælumst við til að skátafundir falli ekki niður. Þó margir skátaforingjar séu í framhaldsskólum þá bætir það stöðu skátafundanna að framhaldsskólum sé lokað, þá er síður hætta á smiti inn á skátafundina. Framhaldsskólanemi er jafn öruggur og fjölskyldumeðlimir.
Fylgjum leiðbeiningum landlæknis um 2ja metra fjarlægð milli skátanna okkar, útbúum aðstöðu fyrir handþvott og handsprittun. Mælst er til að fólk noti aðrar kveðjur en handaband og faðmlög.
Skátafundir
Mikilvægt er að halda hvunndeginum eins óbreyttum og hægt er hjá börnum og ungmennum og á þessu stigi er EKKI mælst til þess að hætt verði að halda skátafundi en lögð áhersla á að farið sé að leiðbeiningum yfirvalda um handþvott og samneyti. Ef til vill má líkja aðstæðum á hefðbundnum skátafundum við skólastarf og mælast til að foringjar og stjórnir skátafélaga séu vakandi yfir leiðbeiningum og tilmælum í sínu skólahverfi.
Skátastarf, verkefni og leikir
Fljótlega eftir helgi munum við senda út hugmyndir að hvað hægt er að gera í skátastarfi í ljósi aðstæðna. Einnig munum við senda út skátapakka fyrir þá sem komast ekki á fundi og þurfa að vera heima.
Útilegur – svo sem sveitarútilegur og innilegur
BÍS mælist til þess að stærri viðburðum verði frestað þar sem fólk kemur úr ólíkum áttum og líkur séu á nánu samneyti. Ef hópurinn sem útilegur/innilegur á við er stærri en á hefðbundnum skátafundi þá er mælst til þess að viðburðinum verði frestað.
Ágætt er að ákveða mánuð fram í tímann fyrir viðburði. Þá er hægt að skoða hálfsmánaðarlega hvort eigi að fresta viðburðum tveim vikum lengur en það sem þegar er búið að fresta.
COVID-19 og börn og ungmenni
Hér eru leiðbeiningar frá Landlækni hvernig vernda má börn og ungmenni fyrir COVID-19 veirunni. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með ráðleggingum Landlæknis og annarra stofnana ríkisins því aðstæður geta breyst með litlum fyrirvara.
Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið haft samband við okkur hjá BÍS, skatar@skatar.is eða í síma 550-9800.