Skátarnir taka þátt í Gleðigöngunni!
Skátarnir taka þátt í Gleðigöngu Hinsegindaga í ár líkt og við höfum gert frá árinu 2014. Verkefnið hefur frá upphafi verið að frumkvæði einstaklinga úr röðum skátanna og stutt af landssamtökum skátanna. Það er alltaf mikil stemming og gleði yfir undirbúningi og framkvæmd hjá skátunum í tengslum við gönguna.
Í grunngildum BÍS stendur „Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda.“
Þátttaka okkar í gleðigöngunni er til að undirstrika þessa stefnu og í von um að allir upplifi sig velkomna í skátastarfi.
Þema skátavagnsins í ár er ‚Rataðu út‘. Oft hefur það reynst mörgu hinsegin fólki erfitt að komast út úr skápnum og opinbera hinseginleika sinn fyrir fjölskyldu, vinum eða almenningi. Skátarnir vilja veita ungu fólki þann vettvang og stuðning sem það þarf til að finna sjálft sig. Í skátunum eru það meðmæli að vera öðruvísi og fjölbreytileikinn upphafinn í allri sinni mynd.
Gangan í ár hefst klukkan 14:00, laugardaginn 17. ágúst og gengið er frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.
Við hlökkum mikið til að taka þátt og vonumst til þess að hitta sem flesta skáta niðri í bæ á laugardaginn að fagna fjölbreytileikanum með okkur!